12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Einar Arnórsson:

Jeg vakti hjer máls á því við 2. umr., hvort hv. frsm. þessa máls (M. Ó.) vildi ekki skýra fyrir deildinni, hvað hann meinti með orðatiltækjunum „íslenskir borgarar“ og „erlend skip“. Háttv. framsm. (M. Ó.) virtist skilja fyrirspurn mína í gær sem ertni við sig, en jeg get fullvissað hv. þm. (M. Ó.) um það, að mjer var þetta algjör alvara, og að jeg er ekki vanur að vera með neina ertni hjer í deildinni, hvorki við hann nje aðra, enda hefir hann ekkert tilefni gefið til slíks af minni hálfu. Hann mun sjá það, að þessi orð, sem jeg gjörði fyrirspurnina um, skifta miklu máli um framkvæmd frv., ef það verður að lögum, og er fullkomið alvörumál.