12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Bjarni Jónsson:

Jeg vil leggja hjer líka lítið orð í belg. Jeg skal segja frá því, hvað jeg gjöri mjer í hugarlund að þessi hugtök muni þýða.

Jeg vildi nú fyrst og fremst hafa orðið þegn í staðinn fyrir borgari, af því að íslenskur þegn, er hver sá, sem hefir öll rjettindi í því íslenska konungsríki og samkvæmt nýju stjórnarskránni hefir þar kosningarrjett og kjörgengi.

Þá vík jeg að því, að jeg vil heldur hafa orðið „þegn“ en „borgari“. »Borgari« er ekki annað en þýðing á gríska orðinu „polites“ (ándras), sem þýðir maður, sem býr í borg, eða borgarbúi.

En þar sem Ísland er engin sjerstök borg, þá er orðið „þegn“ rjettara, og þar að auki eldra í málinu. Þá er annað atriðið, hvað meint sje með orðunum „erlend skip“. Jeg skil það svo, að það sje skip, sem ekki eru skrásett eign íslenskra þegna. Þá komum við aftur að 1. gr. laganna frá 1901, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) vitnaði í. Álít jeg, að það sje fyllilega þess vert, að athugað sje og skýrt.

Jeg er ekki svo gamall í þinghettunni, að jeg hafi setið á þingi, þá er þau lög voru sett, svo er guði fyrir þakkandi. Væri nú gott, ef þeir er að því unnu, vildu skýra afstöðu þeirra til hinna eldri.

Jeg mundi skýra þá afstöðu svo, að ákvæði hinna eldri laganna viki fyrir þeim nýju.

Finst mjer ekki ástæðulaust, að þingið hefði haft lengri tíma til að semja lög þessi og gjöra breytingar á þeim eldri.

Sje jeg ekki annað en að þingið verði sjer til athlægis, með því að fara með svo miklu flaustri, að ekki gefist tími til athugunar á mikilsverðum málum.