29.12.1916
Efri deild: 9. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Sigurður Eggerz:

Það hefir vitanlega enga þýðingu að vera að deila við háttv. þm. Ak. (M. K.) um það, hvort hægt hefði verið að mynda stjórn á annan hátt. Það er sannanlegt, að það var hægt. Jeg hafði sjálfur fengið loforð um fylgi 22—23 manna, svo að jeg gat tekið við stjórn einn, ef jeg hefði viljað.

Hitt er annað mál, að óhyggilegt hefði verið fyrir einn mann, að taka við á ófriðartímum, eins og nú, með ekki samfeldari meiri hluta.

Jeg er, eins og jeg tók fram áðan, sammála hv. þm. (M. K.) um, að hjer sje að eins um bráðabirgðastjórn að ræða, er hefir það hlutverk að bjarga landinu út úr stríðshættunni.

Menn með gjörólíkar landsmálaskoðanir geta auðvitað ekki, undir venjulegum kringumstæðum, unnið saman í stjórn, því þeir mundu verða á víxl þröskuldur í vegi þeirra mála, sem ágreiningur er um, hvenær sem þeim væri ýtt fram á stjórnmálasviðið.

En stjórn, sem er orðin til í því skyni að gjöra eitthvað, hún verður að fylgjast að, sem einn maður, um öll stórmál, annars getur hún ekki búist við góðum árangri.

Hitt legg jeg áherslu á að allir skilji. bæði utan þings og innan, að þessi stjórn er að eins til orðin til þess að bjarga landinu úr þessari hættu, sem vofir yfir því, stríðshættu.