11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Fjármálaráðherra (B. K.):

Það er ekki mikið, sem jeg þarf að segja. Jeg hefi borið till. nefndarinnar undir meðstjórnarmenn mína. Við höfum ekkert að athuga við viðbætur þær, sem nefndin hefir gert; þær eru flestar nauðsynlegar; sumar óhjákvæmilegar. Nefndin hefir felt burt styrkinn til smjörbúa og námurekstrar, eftir tilmælum stjórnarinnar, enn fremur styrkinn til þess að reisa hús yfir listaverk Einars Jónssonar, en til er ætlast, að sú upphæð verði sett í fjárlögin. Það eru að eins þrjú atriði, sem stjórnin hefir nokkuð að athuga við, sem sje lækkunin á styrk til skólanna. Jeg skal því drepa á það nokkuð nánar.

Fyrst er þá kvennaskólinn í Reykjavík. Það var álit stjórnarinnar, að minni styrkur en 2,500 kr. gæti ekki komið til mála. Í árslokin 1916 var skuld skólans orðin 2,811 kr., og enn meira hefir tapið verið frá 1. jan. 1917 þar til skólanum var sagt upp. Stjórnin leggur því áherslu á, að sú upphæð verði veitt, sem hún lagði til.

Sama er um Blönduósskólann. Nefndin hefir lækkað hann úr 1,500 kr. niður í 500 kr. Skólinn er í niðurníðslu, bæði utan og innan, vegna fjárskorts; húsgögn eru ónóg; bókasafnið brann 1911, og hefir sáralítið bæst í staðinn; leikfimihús er ekkert, en þyrfti að koma sem fyrst. Ef skólar eru á annað borð styrktir, þá þarf að styrkja þá svo, að þeir geti notið sín. Stjórnin heldur fast við þessa fjárveitingu, og vonar, að nefndin verði henni ekki mótfallin.

Þá er Flensborgarskólinn. Hann getur ekki lifað nema hann njóti svo mikils styrks, sem honum er nauðsynlegur til að geta starfað. Nefndinni er nokkur vorkunn, að hún lagðist á móti styrknum til hans. Hún hafði ekki í höndum nýrri reikninga skólans en fyrir 1915. Stjórninni hefir síðan borist reikningur skólans fyrir 1916. Af honum sjest, að skuld skólans hefir hækkað um 1000 kr.; hún er því nú orðin 3616 kr. Síðan má gera ráð fyrir, að bæst hafi við minsta kosti 1000 kr., svo að ekki eru 3000 kr., sem voru áætlaðar handa skólanum, ofmikið. Nú er því svo háttað, að einstakir menn standa á víxlum fyrir skólann. Það er ilt, að menn, sem starfa fyrir lítið eða ekki neitt fyrir skólann, skuli líka þurfa að standa í ábyrgð fyrir hann. Skólinn á engar eignir, sem teljandi sjeu. Auk húsaleigu hefir hann að eins kr. 167.90 í árstekjur af eignum. Nefndinni er vorkunn, eins og jeg sagði; hún vissi ekki, að skuldir skólans munu nú nema 3616 kr. Fái skólinn ekki 3000 kr., verður hann að leggjast niður. Skólinn er orðinn gamall og hefir altaf haft gott orð á sjer. Fæði hefir verið þar mjög ódýrt. Nemendur hafa numið þar vel. Það hafa sýnt próf þeirra drengja, sem þaðan hafa farið í Mentaskólann. Jeg vona því, að nefndin athugi þetta mál vel, áður en hún verður þess valdandi, að skólinn verði að leggjast niður, ekki síst þar sem stjórnin er svo samvinnugóð, að hún sættir sig við allar aðrar breytingar nefndarinnar.