11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Þórarinn Jónsson:

Jeg vildi að eins leiðrjetta misskilning, sem mjer fanst kenna í ræðu háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). Hann gat þess, að hjeraðið hefði lagt það á sig að halda skólann, og því væri rjettara, að hjeraðið veitti honum aukinn styrk en landssjóður. Jeg þarf ekki að taka það fram, sem öllum er kunnugt, að árlega er veitt meira eða minna úr sýslusjóðum Húnavatnssýslna til skólans. En hjeraðið hefir ekki sjeð sjer fært að ganga lengra, þegar þess er gætt, að þessi skóli er enginn hjeraðsskóli, heldur sækja hann nemendur víðs vegar af landinu. Það veitir fulla ástæðu til að leita styrks af almannafje, og þar af leiðandi skylda landssjóðs að styrkja skólann eftir föngum.

Sami hv. þm. (P. J.) gat þess, að ekki sæist á reikningi skólans, að sýslan hefði lagt annað fram en húsaleigu fyrir skólann. Þessi liður á reikn. er óglöggur. En það get jeg sýnt, að sýslurnar hafa síðustu árin styrkt skólann árlega með 1000 kr. framlagi, og þetta framlag hefir altaf etist upp til rekstrar, því að vitanlegt er, að fæðisgjald námsmeyja er svo lágt; og þetta framlag með landssjóðsstyrknum dugir því ekki upp í kostnaðinn. En með því að reikna það svo lágt, er aðgangur greiðari og ódýrari fyrir alt landið. Hvað snertir þessa reikningsfærslu, vona jeg, að hún verði löguð, því að hún getur og hefir nú valdið misskilningi. Sami hv. þm. (P. J.) kvaðst taka það trúanlegt, sem jeg bar fram um kostnaðinn, og var honum það óhætt, og brtt. mín við brtt. fjárveitinganefndar er sniðin eftir og miðuð við niðurfærslu nefndarinnar á öðrum skólum, til að koma samræmi á. Hafði jeg því hugsað mjer að vera með brtt. nefndarinnar, í því trausti, að mín brtt. verði samþ. að því er Blönduósskólann snertir, Ef till. fjárveitinganefndar verða feldar, en mín till. samþ., er Blönduósskólinn kominn í ósamræmi við aðra skóla, og mun jeg þá gera brtt. við 3. umr. til hækkunar. Þetta vildi jeg taka fram til skýringar því, að jeg vil ekki taka brtt. aftur.