15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Framsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg vil að eins leyfa mjer að benda á nokkrar brtt., sem fjárveitinganefnd hefir gert á þgskj. 447. Er það flest liðir, sem ekki hefir unnist tími til að fá upplýsingar um, en eiginlega ekkert athugavert við þá.

1. brtt. er um einskonar styrk eftir á til kaupmanns í Hornafirði, Þórhalls Daníelssonar, fyrir það, sem hann hefir gert þar í almenningsþágu árið 1916 til að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Er auðvitað ekkert vit í, að hann haldi þar uppi skipaferðum fyrir ekkert. Nefndin hefir lagt til 7000 kr. Býst jeg ekki við að þurfa að mæla sjerstaklega með þessu, því að þetta er vitanlega fullkomin sanngirniskrafa.

Þá hefir nefndin tekið upp litla fjárveitingu til að setja grind í hliðið að Safnahúsinu. Mun jeg ekki lengja umr. um það, því að allir munu sjá, að trauðla sæmir, að í hliði þessu sje raftur einn, svo sem í túnhliði niðurnídds hjáleigukots. Tel jeg víst, að menn samþykki þetta. Þá hefir fjárveitinganefnd lagt til, að aftan við 10. gr. komi 3 liðir. Eru tveir þeirra á þgskj. 447 og sá 3. á þgskj. 474.

Hinn fyrsti þessara liða heimilar stjórninni að láta nota fje það, sem veitt er fyrir árin 1916 og 1917 til íslenskrar orðabókar á nafn Jóns rithöfundar Ólafssonar, ef hún getur látið starfa að bókinni á þessu ári, og verður sjálfsagt hafður sami mælikvarði á laun þeirra, er við taka, sem ákveðinn var fyrsta höfundi hennar.

Þá hefir fjárveitinganefnd, eftir tilmælum stjórnarinnar, lagt til, að undanþiggja aðflutningsgjöldum þær vörur, sem fluttar hafa verið eða fluttar verða hingað og hjeðan úr Vesturheimi, með leyfi ríkisstjórna þar, til stjórnarvalda í Færeyjum. Sakir þess, að Færeyingar hafa leitað hjer liðsinnis um flutning á vörum, þykir hart, að landið taki toll af þeim. Auðvitað verða þær vörur fluttar hingað og hjeðan með leyfi þeirra valda, er ráða nú á höfum heimsins, með þeim rjetti, er þær taka sjer, svo að Íslendingum er þar enginn vandi búinn. Hygg jeg ekki þurfa að rekja þetta frekar.

3. heimildin á þgskj. 474 er að veita Brynjólfi Einarssyni, símaverkstjóra, 1000 kr. styrk af símafje. Það er maður, sem hlaut meiðsl mikil í vinnu sinni við símann, datt úr háum símastaur á jörðu niður, og hefir legið lengi óverkfær. Er svo sjálfsagt að veita þetta, að jeg mun ekki að óreyndu fara fleirum orðum þar um. Þetta er ungur maður og fátækur, á konu og börn, og þarf hjálpar við.

Þá man jeg ekki eftir fleirum till. frá fjárveitinganefnd. Samgöngumálanefnd mun sjálf gera grein fyrir sínum brtt. Vil jeg þá minnast örfáum orðum á brtt. mín sjálfs á þgskj. 466, að til Breiðafjarðarbáts verði veittar 5000 kr. í stað 4000 kr. Háttv. samgöngumálanefnd og fjárveitinganefnd voru sammála um að veita 4000 kr., en það virtist mjer helsti lágt, saman borið við aðrar breytingar af sama tægi, og auk þess var óreynt, hvort háttv. deild vildi ekki veita hærri uppbótarstyrk. Við síðustu umr. var felt að veita 6000 kr., en þar sem aðalatriðið var samþykt, taldi jeg heimilt að bera upp nýja tillögu með annari upphæð. En nú hefir hæstv. forseti gefið þann úrskurð, að það megi ekki, nema samþykt sje af deildinni með nafnakalli, sem ætíð mun fást. Vona jeg nú, er leyfið er fengið, að menn muni svo höfðinglyndir að ætla þessum bát styrk sem öðrum. Hans hlutur væri fyrir borð borinn, ef hann fengi ekki 5000 kr. Vil jeg ekki tefja fundinn með því að rekja rök til þessa.

Um aðrar einstakar till. get jeg ekkert sagt fyrir nefndarinnar hönd. Hvorki hefir nefndin sjeð þær, nje haft tíma til að bera sig saman.