06.07.1917
Efri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

29. mál, skipun bjargráðanefndar

Magnús Kristjánsson:

Jeg vildi að eins beina örfáum orðum til háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) viðvíkjandi ummælum hans um þingið 1915. Jeg ætla ekki að dæma um það, hvort ástæða sje til að áfella það fyrir gerðir þess yfirleitt.

En áhersla sú, er háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) lagði á þýðingu till. sinnar þá, þykir mjer helst til mikil; því að áður en till. sú kom fram var þingið búið að gera sömu ráðstafanir, búið að skipa nefnd og setja lög til að framkvæma hið sama og í till. stóð. Jeg get því alls ekki sjeð, hvaða þýðingu till. þessi gæti haft, nema að hún hafi verið borin fram af óviðráðanlegri löngun háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) til þess að láta mikið á sjer bera.

Jeg get ekki heldur tekið því þegjandi, að háttv. Alþ. sje vítt fyrir fyrirhyggjuleysi, sem það hefir alls ekki gert sig sekt í.

Þegar talað er um það að birgja landið að vörum, þá er þar við margt að athuga. Verðlag getur breyst, varan fallið í verði, svo að stórskaði verði að. Auk þess er ýms vara, sem þolir ekki að geymast ár frá ári, t. d. kornvara. Þetta verður líka að taka til athugunar. Það eina, sem finna mætti þingi og stjórn til foráttu í þessu falli, er það, að oflítið hafi verið gert að því frá byrjun ófriðarins að sjá um það, að nóg væri til af þeim vörum, sem nauðsynlegar eru til innlendrar framleiðslu. Það eru þær vörur, sem helst til lítið hefir verið gert til að birgja landið upp að, bæði í tíð stjórnarinnar, sem starfaði 1914 og 1915, og maður mætti má ske segja í tíð stjórnarinnar 1917.

Það er þetta, sem jeg álít að hafi mesta þýðingu fyrir okkur, því að kaup stórfenglegra birgða af kornvörum, sem nú eru afardýrar, og svo ætti að geyma ár frá ári, er naumast heppilegt, og þarf að fara gætilega í það.

En af því getur engin hætta stafað að birgja landið að vörum, er til framleiðslu þarf, því að ef við höfum þær, þá á oss ekki mat að skorta fyrst um sinn.

Verði samgöngur við önnur lönd og verslun þar af leiðandi fyrir miklum hindrunum fram yfir það, sem nú á sjer stað, verður þjóðin auðvitað að búa sem mest að sínu og sýna, að hve miklu leyti hún getur verið sjálfri sjer nóg, þegar á reynir.

Að framleiðslan geti haldið áfram án mikilla hindrana er aðalskilyrðið fyrir því, að þjóðin verði fær um að kaupa nokkuð til muna af útlendum varningi, sem nú er lítt fáanlegur, og þá ekki nema með afarverði.