28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg sje, að háttv. fjárveitinganefnd hefir ekki gert margar breytingar á frv., frá því sem það var, er það fór úr Nd., og mjer finst, að jeg geti verið henni sammála um flestar breytingar hennar.

Ein hækkunin, sem nefndin leggur til, fer í þá átt að hækka styrk til sjúkraskýla. Það er auðsætt mál, að þennan styrk verður að hækka, ef sjúkraskýlin eiga á annað borð að geta haldið áfram starfsemi sinni. Og þetta er svo mikilsvarðandi mál, að ekki gæti náð nokkurri átt að loka sjúkraskýlum, þótt skólum yrði t. d. lokað.

Um veitinguna til handavinnunámsskeiðsins á Akureyri er það að segja, að námsskeið þetta hefir verið ákaflega vinsælt og borið góðan árangur, að vitnisburði þeirra, er til þess þekkja, og á það því þennan styrk skilið.

Hið sama er að segja um styrkinn til Brynjólfs Einarssonar. Eins og háttv. frsm.

(E. P.) tók fram hefði hann fengið eins miklar skaðabætur og farið er fram á í brtt. fjárveitinganefndar Ed., ef slysatryggingarlög fyrir starfsmenn í þjónustu landsins hefðu verið gengin í gildi, þegar slysið vildi til.

Einnig ætla jeg mjer að greiða atkvæði með fjárveitingunni til bókasafns Austurlands. Þetta bókasafn er eitthvert yngsta bókasafnið á landinu, og hefir ekki legið þungt á landssjóði.

Þá kem jeg að styrkveitingunum til strandferðanna, sem sje Breiðafjarðarbátsins og Hornafjarðarbátsins.

Eins og öllum er kunnugt lögðust strandferðirnar niður að miklu leyti síðastliðinn vetur, og varð þá að bjargast við þann farkost til strandferða, sem völ var á, en það voru helst smábátar. Þannig var ástatt um Breiðafjörð, að þangað höfðu ekki komið vörur um langan tíma.

En við að koma vörunum til Hornafjarðar get jeg sagt, að það mál var mikið skýrt fyrir stjórnarráðinu, þegar farið var fram á aukafjárveitingu í þessu skyni. Eftir þeim skjölum, sem lágu fyrir og því, sem stjórnarráðið fjekk þá að vita um verðlag á vörum, þótti því sanngjarnt, að maðurinn fengi einhvern styrk.

Jeg vil ekki blanda mjer neitt inn í það, sem háttv. þm. Vestm. (K. E.) sagði, að vörurnar hefðu verið miklu dýrari en við hefði mátt búast. En eftir þeim skilríkjum, sem fyrir lágu í vetur, þótti rjett að veita styrkinn.