28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Magnús Torfason:

Það er að eins fyrirspurn til stjórnarinnar, sem jeg vildi gera. Á síðastliðnu vori gat sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu ekki fengið neinn bát til að ganga um Djúpið fyrir 5000 kr. á ári. Það var símað til stjórnarráðsins um þetta, og það símaði aftur til okkar, að það myndi leggja til, að styrkurinn yrði 6000 kr. þetta ár, og svo gerði sýslunefndin samning við bátseiganda eftir þessu. Nú lít jeg svo á, að þetta eigi að koma í fjáraukalögum nú, en jeg sje, að það hefir ekki verið gert. Jeg vildi því hafa orð á þessu nú, stjórninni og fjáraukalaganefndinni til athugunar til næstu umræðu.

Annars verð jeg að segja það, að það gleður mig, að fleiri þm. en jeg líta svo á, að ekki sje rjett að leggjast á mál eftir að flutnm. þeirra eru »dauðir«. Jeg vil undirstrika það!