09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2519)

36. mál, verðhækkunartollur

Pjetur Jónsson:

Jeg verð að gera grein fyrir atkvæði mínu. Jeg býst sem sje við að greiða frv. atkvæði mitt, alls ekki þó af löngun til að ljetta kvöðum af landbúnaðinum, heldur blátt áfram af sömu ástæðu og hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) tók fram, því sem sje, að jeg tel litlar líkur til, að nokkuð af verðhækkunartollinum á ull renni í landssjóð, ef lögin verða ekki framlengd. Það er að eins af þessari ástæðu, að jeg er með frv.

Jeg er á sömu skoðun og háttv. 1. þm. Skagf. (M. G ), að ver hafi tekist í samningunum með landbúnaðarvörur en sjávarafurðir, og var þó hvorugt gott. Ullarverðið er alveg óviðunandi, en þó teldi jeg ekki eftir bændum að borga þennan toll af ullinni, ef jeg hefði nokkra von um, að hann rynni í landssjóð.