31.08.1917
Efri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Frsm. (Eggert Pálsson):

Nú liggja að eins fyrir 3 brtt. við frv. Ein þeirra er frá fjárveitinganefnd, en hinar 2 eru frá einstökum þingmönnum. Brtt. á þgskj. 728, frá fjárveitinganefnd, er viðbót við 10. gr. frv. og fer fram á, að stjórninni sje heimilt að láta leggja símalínu frá Borgarnesi að Svignaskarði á þessu ári. Fjárveitinganefnd er skýrt svo frá, að símalína þessi sje mjög nauðsynleg, sjerstaklega fyrir ferðamenn, er koma að austan og vestan. Hins vegar hefir nefndin fengið upplýsingar um það, að ekki þurfi nýrrar fjárveitingar til þessarar línu, þar sem talsvert af efninu er þegar fyrir hendi. Það þarf að eins heimild fyrir stjórnina til þess að leggja línuna nú á þessu sumri. — Lína þessi yrði 19 km. að lengd. Á 10 km. svæði fellur hún saman við línuna frá Borgarnesi að Grund, og þarf þá að eins þráð á þeim kafla.

En frá því að línan að Grund beygir til suðurs er hin fyrirhugaða símalína 9 km., og þarf á því svæði bæði staura og þráð. En nú mun vera til eitthvað af staurum, sem nota má á þessum kafla. Hygg jeg því, að hjer geti ekki verið um neinn stórvægilegan fjáraustur að ræða, Ef kaupa þyrfti alt efni til línunnar, mundi hún að vísu kosta 9000 kr., en þar sem mikið af efninu er fyrir hendi, verður kostnaðurinn ekki tilfinnanlegur. Nefndinni fanst því rjett að veita stjórninni þessa heimild, þar sem mikil þörf er á línunni, sjerstaklega vegna ferðamanna, eins og jeg tók áður fram. Hve mikil nauðsyn hjeraðsbúum er á henni skal jeg láta ósagt, brestur kunnugleika til að geta um það dæmt.

Þá er brtt. á þgskj. 709., frá háttv. þm. Ísaf. (M. T.). Hún fer fram á að bæta 1000 kr. við styrkinn til bátaferða á Ísafjarðardjúpi. Nefndin hefir fengið upplýsingar um það milli 2. og 3. umr. þessa máls, að sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu hafi á síðastliðnu vori samið við eiganda Djúpbátsins um 6000 kr. styrk fyrir ferðirnar. Í gildandi fjárlögum eru að eins veittar 5000 kr. til þessara ferða. Vantar þá 1000 kr. til þess, að sýslunefndin geti staðið í skilum. Þetta hefir háttv. þm. Ísaf. (M. T.) upplýst fyrir nefndinni, og hefir stjórnin viðurkent, að það sje rjett. Vill því nefndin ljá þessari till. fylgi sitt.

Öðru máli er að gegna um till. háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) á þgskj. 730. Sú brtt. fer fram á að hækka styrkinn til Flensborgarakólans um helming. Eins og menn sjá eru honum ætlaðar 1000 kr. í frv. Í hinu upprunalega frv. stjórnarinnar var gert ráð fyrir 3000 kr. styrk til skólans, en liðurinn var lækkaður niður í 1000 kr. í háttv. Nd. Till. um að hækka styrkinn aftur var feld í háttv. Nd. Fjárveitinganefnd hefir nú látið upphæðina standa óbreytta, eins og Nd. gekk frá henni. Nefndinni sem heild finst ekki ástæða til að breyta henni. Henni finst styrkurinn, sem samþyktur var í Nd., sanngjarn og í samræmi við styrk til annara skóla. Ef styrkurinn til þessa skóla yrði aftur hækkaður um 1000 kr., væri það ósanngjarnt gagnvart hinum 2 skólunum, sem eru hliðstæðir þessum. Þessi skóli virðist ekki verða svo illa úti í fjárveitingum. Því nær öll gjöld hans eru greidd úr landssjóði, og í fjárlagafrv. nú eru honum ætlaðar 8500 kr., í stað 7000 kr. í gildandi fjárlögum. Sú fjárveiting hefir fengið að standa í háttv. Nd., og geri jeg ráð fyrir, að hún standi einnig hjer í háttv. deild. Virðist skólinn því ekki afskiftur, þótt þessi hækkun verði ekki samþykt. Hins vegar hefir nefndin ekki gert nein samtök um að fella þessa brtt. Atkvæði nefndarmanna um hana eru óbundin, þótt nefndin sem heild vilji ekki mæla með henni, af þessum ástæðum, sem jeg nú hefi tekið fram.