18.07.1917
Efri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

36. mál, verðhækkunartollur

Eggert Pálsson:

Mig furðar það stórlega, að hv. formælendur sjávarútvegsins skuli hafa fundið ástæðu til þess, hver á fætur öðrum, að standa upp til þess að ráðast á þetta litla frv. og sennilega eyða miklu meira fje til þess en hjer er um að ræða, að landssjóður gæti mist af, þótt frv. væri orðalaust samþ.

Hv. þm. Ísf. (M. T.) tók það fram, að frv. þetta væri óþarft vegna þess, að engin ull mundi verða flutt út fyr en eftir 16. sept. í haust, að verðhækkunartollslögin eru fallin úr gildi.

En ef svo er, þá sjá allir, að þetta frv. er afarmeinlaust, því að þá gefur ullin hvort sem er engar tekjur í landssjóðinn, þótt hún haldi áfram að vera tollskyld á pappírnum. Það er því ekki hundrað í hættunni, þótt frv. sje samþykt. Það sjá allir.

Hv. þm. Ak. (M. K.) vildi aftur á móti láta framlengja verðhækkunartollslögin, sem falla af sjálfu sjer úr gildi 16. sept., ef þau eru ekki endurnýjuð, og vildi af þeirri ástæðu láta fella þetta frv. En það vita allir og viðurkenna, að ef endurnýja á lögin, þá þarf að gagnskoða þau rækilega, svo að það yrðu þá algerlega ný lög, er kæmu fram. Frá því sjónarmiði skoðað virðist mjer því engin þörf á að halda þessum skatti nú, er allir viðurkenna, að enga praktiska þýðingu hafi.

Að svo vöxnu máli skal jeg ekki mæla frekar með frv. þessu eða þrátta um það en mjer finst það bæði eðlilegt og skylt að vísa málinu til nefndar; en verði því vísað til nefndar, þá á það ekki að vera til landbúnaðarnefndar, heldur fjárhagsnefndar, því að málið snertir mest fjárhag landsins. Jeg vil því leyfa mjer að leggja til, að málinu sje vísað til fjárhagsnefndar að þessari umræðu lokinni, enda á það þar heima samkvæmt þingsköpum, þar eð fjárhagsnefnd Nd. hefir áður um það fjallað.