31.08.1917
Efri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Framsm. (Eggert Pálsson):

Jeg hefi ekki ástæðu til að minnast á annað en brtt. á þgskj. 730. Enginn hefir mælt á móti till. fjárveitinganefndar á þgskj. 728, og hæstv. atvinnumálaráðherra hefir lagt brtt. á þgskj. 709 liðsyrði sitt.

Meiri hluti fjárveitinganefndar hefir ekki getað fallist á skoðun hv. flutnm. brtt. á þgskj. 730 (K. D.), að nauðsyn beri til að hækka styrkinn til Flensborgarskóla. Það mun að vísu rjett, að Flensborgarskóli hafi tekið á 3. þús. kr. lán. En það lán hefir ekki gengið alt til þess að greiða halla af rekstri skólans síðastliðið ár, heldur munu og eldri skuldir skólans hafa verið greiddar af því. Hallinn frá síðastliðnu ári mun ekki nema meiru en þeim 1000 kr., sem skólanum verða nú veittar samkvæmt frv. Ef nú verður veitt meira fje en þessar 1000 kr, þá er álitamál, hvort nú er hentugur tími til að greiða eldri skuldir skólans.

Hagur skólans er að vísu ekki góður, sem ekki er heldur von. Skólinn hefir engar tekjur nema landssjóðsstyrkinn, og auk hans eftirgjald af Hvaleyri, sem mun nema á annað hundrað krónur. Annan styrk hefir hann ekki. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir því, að skólinn verði ekki ver settur framvegis heldur en verið hefir, þar sem honum eru nú ætlaðar 8500 kr. í fjárlagafrv., í stað 7000 kr. í gildandi fjárlögum, þótt þessi hækkun verði ekki samþykt. Það gæti og dregið skólann drjúgt, ef þeir, sem helst hafa not af honum, Hafnfirðingar og íbúar Gullbringu- og Kjósarsýslu, vildu veita þessum þýðingarmikla skóla ofurlítinn styrk. Bæjar- og sýslufjelögin ættu að sýna skólanum einhvern sóma, jafngóð og nýt stofnun sem hann er og jafnmikil not sem þeir hafa af honum, öðrum fremur. Væri með því hægt að bæta kjör hans, svo að hann verði ekki illa kominn.

Meiri hluti fjárveitinganefndar er þeirrar skoðunar að greiða ekki, brtt. á þgskj. 730 atkv., en hins vegar eru atkvæði nefndarinnar óbundin, eins og jeg hefi þegar tekið fram.