20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Hákon Kristófersson:

Við 2. umr. þessa máls ljet jeg þess getið, að jeg kynni ekki við niðurröðun á launaflokkum í frumv., og þess vegna hefi jeg leyft mjer að koma fram með

brtt. á þingskj. 126, sem er svo augljós, að hún þarf engra skýringa við. Samkvæmt frumv. er gert ráð fyrir, að lægstu laun hreppstjóra sjeu 60 kr., en hæstu 120 kr. Þrátt fyrir ítarlega athugun hefi jeg enga ástæðu getað sjeð til þess að gera svo mikinn mun á hæst og lægst launuðu hreppstjórunum, eins og frumv. gerir. Í fólksflestu hjeruðunum er ætlast til, að launin verði hæst, og mælir ýmislegt með því, en aftur á móti má telja það sem gefið, að aukatekjur verði, ef ekki mörgum sinnum meiri, þá miklu meiri, í fólksmörgu hreppunum. Það meðal annars ætti að gera það að verkum, að mismunur launanna, eins og hann er gerður samkvæmt frumvarpinu, er ekki rjettlátur.

Jeg vil leyfa mjer að benda á eitt, og það er, að innheimta, t. d. á þinggjöldum, í víðlendum strandlengjuhreppum, er oft mjög erfið. Sömuleiðis er ilt að ná í skýrslur eða undirstöðuatriði til þeirra. Þetta getur alt orðið miklu hægara í fólksmörgum hreppum, sem oft eru ekki eins víðlendir. Sennilega er tekið tillit til þess í frv., að skýrslugerð sje erfiðari í fjölmennu hreppunum, og má það til sanns vegar færa, að skýrslurnar verða nokkru lengri, en að eins að línufjölda eftir mínu viti. En að launamismunurinn geti grundvallast á því, það nær ekki nokkurri átt. Og af því að jeg get ekki sjeð, að það rjettlæti helmingsmismun á launum, hefi jeg leyft mjer að fara fram á, að hæstu launin verði lækkuð og lægstu launin hækkuð, og verður þá meira samræmi í laununum. Vitanlega hefði jeg viljað hafa brtt. öðruvísi, en taldi meiri líkur til, að hún yrði samþykt í þessu formi. Jeg vænti, að meiri hluti háttv. deildar sje svo sanngjarn, að hann sjái, að þetta miðar til bóta. Mjer kæmi það á óvart, ef jafnmætur maður og jeg hygg, að háttv. framsm. (M. G.) sje, viðurkendi ekki, að brtt. miðar í umbótaátt. Háttv. frsm.(M. G.) gat þess, að nefndin hefði ekki átt kost á að bera sig saman um brtt. mína, en jeg skal ekki hafa á móti því, ef nefndin vill athuga hana, að málið verði nú tekið út af dagskrá, þótt jeg álíti það ekki nauðsynlegt. Þó vil jeg taka það fram, að jeg taldi enga þörf á því, að frv. um bætt laun hreppstjóra kæmi nú fram, en þar sem hæstv. stjórn hefir lagt það fyrir Alþ., vildi jeg að mínu leyti stuðla að því, að það yrði sem rjettlátast, og þótt jeg sje ekki ánægður með það, eins og það verður þótt brtt. mín verði samþ., álít jeg það þó nokkru betra, enda sá mjer ekki fært að koma með frekari brtt. Jeg skal ekki fjölyrða meir um þetta, því að það er augljóst, að brtt. mín er sanngjörn.