04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í C-deild Alþingistíðinda. (3099)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Þórarinn Jónsson:

Jeg þarf ekki miklu að svara, því að ekkert hefir verið hrakið af því, sem við flutningsmenn höfum haldið fram, viðvíkjandi tillögunni. Þó vil jeg nú drepa á örfá atriði.

Hæstv. atvinnumálaráðh. gat þess, að sýslumönnum væri í sjálfsvald selt, hvernig þeir úthlutuðu vörunum. Að því, er jeg þekki til, er síður en svo. Jeg tók það fram, að hjá sýslumanni þeim, er jeg átti við, gátu kaupmenn eða kaupfjelög ekki fengið vörur. Og hvað það snertir, að nota sýslunefndir sem milliliði, álít jeg, að það gæti varla komið til mála. Þær gætu als ekki skift sjer af því, sitja altof dreift. Hæstv. atvinnumálaráðh. tók líka fram, að umræðurnar um þetta mál ættu að vera til leiðbeiningar stjórninni, ef hún vildi fara eftir þeim. Jeg get nú ekki trúað henni fyllilega til þess að taka þær til greina, fremur en till. þá um verð á landssjóðsvöru, sem rætt var um á aukaþinginu í vetur, og stjórnin sá sjer ekki fært að taka til greina.

Hv. frsm. meiri hl. (Þorst. J.) tók það fram, að stjórnin væri bundnari með þessari till. en till. meiri hlutans, og ef málinu væri vísað til hennar, gæti hún haft alt sem hún vildi. Það er satt, en af því að jeg treysti hæstv. stjórn ekki til að fara eftir umræðunum í málinu, vil jeg, að till. sje samþ. Jeg get ekki sjeð, að hún verði í neinu bundnari, þótt hún skifti við sveitarstjórnir en sýslunefndir. Að vísu yrði verslunarskrifstofan að taka við fleiri brjefum og peningasendingum. Skrifstofan sendi auðvitað vörurnar í stórum „partíum“ til margra sveitarstjórna í sameiningu, á þær sömu hafnir og áður. Og í sambandi við þetta vil jeg taka það fram, hve andstætt og erfitt það er sýslumönnum að fara langa yfirferð á hverja höfn í umdæmi sínu. Það er ekki lítil aukning fyrir þá, og virðist þá alveg eins hægt að fá menn á hverjum stað til að taka á móti vörunum. Það er nú loks búið að skýra frá því, að sýslumenn fái 2% í ómakslaun. (Atvinnumálaráðh.: Það er ekki fastákveðið.). Jæja, um 2%; getur verið meira.

Jeg tók það fram við 1. umr., að vörur í eina margmenna sýslu myndu nema svo mikilli upphæð, að 2°/0 af því yrðu um þús. kr. Það er því ekki lítið fje, sem fer í þetta. Verður þá ekki verra fyrir kaupandann að fá vörurnar hjá kaupmanninum, því að hann verður eins að gjalda vexti af láni til að kaupa vöruna, Og svo 2 af hundraði í ofanálag.

Hv. frsm. meiri hl. (Þorst. J.) talaði um það, að hjer væri ekki að ræða um neitt vantraust á sveitarstjórnum, og færði til þá ástæðu, að hver sýsla hefði ábyrgð á sínum hreppi. Jeg skal ekki fara út í það, hvort þetta er rjett, en ef það er rjett, þá er sjerstök ástæða til að treysta sveitarstjórnum. Þá á landsstjórnin altaf aðgang að sýslunefnd, og er því ekki í neinni hættu. Enda fullyrði jeg, að það er engin hætta fyrir landssjóð að skifta beint við sveitarstjórnirnar. Þá sagði hv. frsm. (Þorst. J.), að kaupmenn og kaupfjelög myndu ekki vilja taka við vörunni til útbýtingar. Um það er ekkert hægt að segja. Hann færði sem ástæðu, að kaupmenn vildu vera lausir við að selja landssjóðssykur. Það sannar ekkert. Kaupmönnum er að sjálfsögðu rjett að borga meira en 2%, og þótt þeir fengju 8%, væri það ekkert óhagræði fyrir kaupandann, sem bæði verður að borga vexti af láni og 2% að auki til sýslumanna. Landssjóður verður að hafa kaupmenn til að taka við innlendu vörunni, og þá er ekkert eðlilegra en að vöruskiftin haldist.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) þorði ekki að samþ. till. vegna þess, að hann hjelt, að hún myndi binda stjórnina. Jeg hefi sýnt fram á, að hjer er ekkert í hættu, því að á því sjeu engir erfiðleikar að skifta beint við sveitarstjórnir eða kaupmenn. Jeg skal taka það fram, að þótt till. sje þannig orðuð, felst það fyllilega í henni, að kaupmenn og kaupfjelög skuli versla með sem mest af vörunni. Jeg verð sem sje að telja það affarasælast.