04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í C-deild Alþingistíðinda. (3100)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Sigurður Stefánsson:

Jeg verð að játa, að jeg er í töluverðum vanda staddur. Jeg get fallist á báðar till., og vandinn er því sá, með hvorri jeg eigi að greiða atkvæði. Jeg finn í báðum till. mjög mikið, sem bæði er sennilegt og sanngjarnlegt, og þetta vegur enn salt í huga mínum.

Jeg vil ekki álasa hæstv. stjórn, þótt hún tæki þann kost að snúa sjer til sýslumanna fyrst, því að það varð jeg að telja sjálfsagt í byrjun þessara vandræða; því að víst er um það, að sýslumenn eru að lögum milliliðir milli landsstjórnar og sveitarstjórnar í slíkum málum sem þessum. En hitt getur líka verið, að margt komi fram, þegar framkvæmd og reynsla koma til sögunnar, og ýms atriði bendi þá á, að fleiri leiðir sjeu til í þessu máli en þessi eina leið.

Jeg skal játa það, að það gæti í sumum tilfellum verið þægilegt fyrir sveitarstjórnirnar að eiga aðganginn að landsstjórninni milliliðalaust, en stundum mundi þeim veitast það erfitt að koma sjer á framfæri hjálparlaust og geyma vörurnar, því að jeg hygg, að ekki sjeu það allir hreppar, sem hafi ráð á nægilegum geymsluhúsum fyrir allar þær vörur, sem þeir þyrftu að fá í einu. Eins og allir

vita taka hlutaðeigendur vörurnar ekki allir í einu, og verður því að geyma þær lengri eða skemri tíma. Sömuleiðis gæti jeg hugsað mjer, að sumum sveitum yrði örðugt um afhending varanna, og jeg efast um, að hún gengi eins greitt og nú, ef stjórnin verður neydd til að fara þessa leið.

Þá er enn ein ástæða á móti þessari tillögu, sem jeg hefi ekki áður nefnt. Jeg býst við því, að sumar sveitirnar sjeu svo staddar, að þær geti ekki sett mikla tryggingu fyrir greiðslu á þeim vörum, sem þær yrðu að fá. Jeg veit það t. d., að ein sveitin í mínu kjördæmi er svo stödd, að sýslan getur búist við að verða að taka við henni til framfærslu hve nær sem vera skal. Jeg segi þetta ekki til að bera út kjósendur mína, heldur af því, að jeg veit, að ástandið er nú einu sinni svona, og jeg efast um, að landsstjórnin gæti með góðri samvisku lánað slíkum hreppum miklar vörur án tryggingar frá sýslunefndum.

Jeg skal taka það fram, að það er sumt, sem að mínu áliti mælir með þessari tillögu, t. d. það, að með því að fela sýslumönnum afhending varanna þá verða allir hreppar sýslunnar að sækja vörurnar á einn stað. Þetta er mikill kostnaður. Jeg veit t. d. um það, að í mínum hreppi nemur þessi kostnaður einn allmiklu fje. Þetta myndi lækka, ef sveitarstjórnum yrði falin afhendingin og vörurnar yrðu settar upp á fleirum stöðum en einum í hverri sýslu. Hitt er engin ástæða móti tillögunni, að hætta sje á, að hrepparnir panti meira en þeir þurfa. Varan er ekki svo ódýr, að hætta geti verið á því. Jeg mun helst hallast að þeirri dagskrá, sem fram hefir verið borin, en jeg álít, að umræðurnar, sem orðið hafa um þetta mál, ættu að vera bending til stjórnarinnar um það, hvernig hún á framvegis að haga sjer í þessu máli. Þær ættu að verða til þess, að sveitarstjórnirnar gætu, ef ástæður væru fyrir hendi, fengið að panta vörur hjá stjórninni milliliðalaust. En til þess, að stjórnin ætti ekki ofmikið á hættunni, þá ætti hún að fá umsögn sýslunefndaroddvita um gjaldþol sveitarinnar, áður en hún lætur hana hafa vöruna. Slíkt vottorð ætti ekki að þurfa að fá nema einu sinni, og gætu hrepparnir útvegað sjer það um leið og þeir panta vöruna í fyrsta sinn.

Hitt virðist mjer ekki gerlegt, að þingið sje að setja stjórninni fastar reglur, sem hún sje bundin við í framkvæmdum sínum. Við verðum að bera það traust til stjórnarinnar, að hún geri það, sem hún álítur hagkvæmast landinu í hverju máli. Af þessum ástæðum mun jeg greiða atkvæði með dagskránni, en ekki af því, að jeg álíti tillöguna að öllu leyti ósanngjarna eða óviturlega.