03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Pjetur Ottesen:

Hv. frsm. (M. G.) hefir rjettilega drepið á það, hvað fyrir mjer vakti, er jeg kom fram með brtt. mína á þskj. 567. Með þessu frv. eru allverulega bætt launakjör hreppstjóra, og er það síst að lasta. Háttv. Ed. hefir breytt frv. allmikið á ýmsum

sviðum, og get jeg eftir atvikum felt mig við þær breytingar, aðrar en þær, sem jeg hefi komið með brtt. við. Háttv. Ed. hefir sem sje fært borgun fyrir úttektir upp um 1 kr., úr 4 kr. í 5 kr., og sömuleiðis fyrir landskifti. Eins og hv. frsm. (M. G.) tók fram er 6. gr. frv. svo orðuð nú, að ekki er hægt að skilja annað en að borga eigi 5 kr. fyrir jarðaskifti, eins og fyrir úttekt, en eins og menn vita geta jarðaskifti tekið fleiri daga, og er það auðvitað meiningin, að greiddar sjeu 5 kr. á dag.

Í brtt. minni eru tekin af öll tvímæli um þetta.

Það, sem fyrir mjer vakti með að koma fram með þessa brtt., er það, að mjer virðist nú orðið svo forsvaranlega gengið frá þóknun til hreppstjóra í þessu frumv., að ekki væri bein ástæða til að spenna bogann svo hátt á þessum liðum. Og sjer í lagi þegar þess er gætt, að úttektarmenn fá ferðakostnað — ef um nokkra verulega vegalengd er að ræða — í báðum tilfellunum. Svo getur það oft komið fyrir í þjettbýli, að hægt sje að taka út fleiri en eina jörð á dag. Nú er það í fleiri tilfellunum svo, að það eru einmitt fátæklingarnir, sem oft — stundum árlega — verða að flytja sig af einni jörðinni á aðra. Þessi hækkun verður þeim því mjög tilfinnanleg.

Jeg vænti þess, að háttv. deild taki vel í þessar brtt, og legg jeg þó meiri áherslu á þá, sem um úttektina hljóðar, og vil skjóta því til hæstv. forseta, að hann beri brtt. upp sína í hvoru lagi.