06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í C-deild Alþingistíðinda. (3221)

120. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Um ástæður fyrir því, að þetta frv. er komið fram, vísa jeg til greinargerðar aftan við það. En að öðru leyti vil jeg taka það fram, að helstu atriði frumvarpsins eru þessi:

1. Að tryggja ábúðarrjett leiguliða á jörðinni, sem oft er mjög valtur og óákveðinn.

2. Að leiguliða sje ákveðin borgun fyrir þær jarðabætur, sem hann hefir látið vinna, og er þar sjerstaklega átt við stærri jarðabótaframkvæmdir, t. d. áveitu, girðingar o. fl.

3. Að tryggja, að á hverri jörð sjeu nægilega mörg og góð hús, og að útbúnaður þeirra sje sæmilegur.

4. Að heimila leiguliða að leysa til sín kúgildi á ábúðarjörðum þeirra, eftir samkomulagi við landsdrottin. Hjer eru þá upp talin helstu atriði og helstu nýmæli í frv. Jeg hafði það fyrir augum með þessu frv. að breyta ekki öðru í núgildandi lögum en því, sem heita má að mest kalli, og hygg jeg, að það sjeu þessi atriði, sem menn hafa helst verið óánægðir með, og því mest nauðsyn að athuga.

Að endingu óska jeg svo, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar.