06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í C-deild Alþingistíðinda. (3223)

120. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Björn Stefánsson:

Jeg verð að taka undir það, sem áður hefir verið bent á, að jeg kalla það furðanlegt, hvað háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem þó er fulltrúi landbúnaðarins, getur verið lítilþægur fyrir hönd leiguliða, sem landbúnað stunda, ef hann getur sætt sig við þær endurbætur á kjörum þeirra, sem í þessu frv. felast, frá því sem þeir eiga við að búa samkv. lögum um ábúð og úttekt jarða frá 1884. Einkum er þetta þó eftirtektarvert þegar þess er jafnframt gætt, að þessi sami hv. þm. og landbúnaðarfulltrúi (S. S.) vinnur á móti því af alefli, að leiguliðarnir fái ábýlisjarðir sínar keyptar.

Að vísu skal það játað, að þær breytingar á núgildandi lögum, sem í þessu frv. felast, eru til bóta, það sem þær ná, en þær eru svo óverulegar, að jeg tel ekki ómaksins vert að fara að breyta öllum þessum mikla lagabálki þeirra vegna. Einkum hefi jeg þó ímugust á frv. vegna þess, að ef þessar óverulegu breytingar ganga fram nú, þá er jeg hræddur um, að það verði til þess að tefja fyrir því, að þessi lög verði endurskoðuð í heild sinni og verulegar endurbætur á þeim gerðar.

Endurgjald það, sem leiguliðum er áskilið fyrir unnar jarðabætur, kr. 1,50 fyrir dagsverkið, er næsta óverulegt, einkum þegar þess er gætt, að hann fær það því að eins, að hann víki frá jörðinni jafnskjótt og verkinu er lokið, eða áður en hann hefir haft nokkurn hag af því, en svo lækkar það eða hverfur með öllu, ef hann nýtur þess svo lengi, að ætla megi, að hann hafi fengið beinlínis framlagðan kostnað; að hann megi græða á því, það er útilokað, nema þá að einhverju litlu leyti, ef hann lifir mjög lengi; og að börn hans fái að njóta þess, það er líka útilokað. Oftast mundu þau reyndar fá ábúðarrjettinn eftir foreldra sína, en með hækkaðri landskuld. Þannig yrðu þau að kaupa verk feðra sinna, í stað þess að erfa þau, sem þau þó ættu að eiga heimting á.

Jeg vil gera kröfuna hærri, og tryggja leiguliða það, að hann fái einnig gróðann af jarðabótum þeim, er hann hefir látið gera, fái að eiga verðhækkunina, sem á jörðinni verður fyrir umbætur hans. Með því einu móti hefir leiguliðinn sömu hvöt til jarðabóta eins og hann ætti jörðina sjálfur. — Mig furðar á, að fyrst að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) vill ekki, að leiguliðar eignist jarðirnar, þá skuli hann ekki gera hærri kröfur fyrir þeirra hönd. Það var að eins þessi bending, sem jeg vildi skjóta til nefndarinnar, með þeirri till., að hún gangi skör lengra, því að jeg get ekki kannast við, að rjettur leiguliða sje sæmilega trygður fyr en hann fær allan gróðann af jarðabótunum, sem hann vinnur.