28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í C-deild Alþingistíðinda. (3266)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Björn Stefánsson:

Þeir, sem eru andvígir þjóðjarðasölu hjer í hv. Nd., færa það fram sem aðalatriði í þessu máli, að engin trygging sje fyrir því, að jarðir haldist áfram í sjálfsábúð, þótt seldar sjeu ábúendum, og enn fremur, að það sje ekki heldur trygt með þessu frv., að jarðir komist ekki í hendur á bröskurum, sem komi þeim upp í svo hátt verð, að búskapur á þeim geti ekki borgað sig, vegna þess, hve landskuldin hlýtur að verða há, en samsvara á vöxtum af kaupverðinu. Aftur á móti segja þeir, sem vilja selja, að vandalaust sje að búa til lög, sem feli í sjer tryggingu á sjálfsábúð. Jeg hefi fyrir mitt leyti aldrei vefengt, að hægt væri að búa til slík lög, með því móti, að þau gangi of nærri eignarrjetti einstakra manna. Nú hafa, eins og hv. þm. er kunnugt, komið fram þrjú frv. hjer í deildinni í þessa átt.

Tvö þeirra voru nú ekki betur úr garði gerð en það, að flutnm. sáu sjer þann kost vænstan að taka þau aftur, þegar farið var að kryfja þau til mergjar hjer í deildinni. Svo er það þriðja nú hjer til umr. En jeg fæ ekki sjeð, að með því sje hnúturinn leystur. Eftir þeim ákvæðum, sem eru tiltekin í 1. gr. frv., er ekki kauprjetturinn metinn meira en svo, að ekki er sjáanlegt að þurfi nema 10 kr. yfirboð, eða jafnvel minna, til að gera að engu forkaupsrjett leiguliðans. Þetta leiðir til þess, að hver getur keypt, sem vill, með því að bjóða yfir, eða þá að hægt er að teyma leiguliða svo langt, með því að láta hann elta yfirboðin, að kaupverðið verði á endanum hærra en hann getur staðið sig við að borga. Þetta er í samræmi við það, að ef fleiri en einn vilja kaupa, þá ræður eigandi hverjum hann selur. Og auðvitað selur hann þá þeim, sem hæst býður, án tillits til þess, hver best mundi fara með jörðina.

Þá er líka talað um sölu eða leigu á ítökum, svo sem fossum, eða veiðirjetti í ám eða vötnum. — Þá þarf sá, sem ætlar að leigja, að ganga til svo og svo margra og bjóða þeim leiguna. Eins og gefur að skilja þá þurfa þeir að svara, og er ætlaður ákveðinn frestur til þess, í þetta fer svo mikill tími, að það gæti hæglega dregist að gera út um það þangað til veiðitíminn, sem um er að ræða, er útrunninn, án þess þó að eigandi hafi sjálfur getað haft nokkur not af. Þetta gæti sjerstaklega viljað til með veiði, sem stendur ekki mjög langan tíma, t. d. lax- og silungsveiði, en þó einkum kópaveiði, sem, eins og menn vita, stendur að eins 1—2 vikur. — Þá er í 5. gr. í frv. ákvæði um, að yfirlýsing þess, er afsalar sjer forkaupsrjettinum, gildi eigi lengur en 6 mán. — Ef nú kauptilboðin verða að ganga gegnum alla þessa liði, og hver að hafa sinn frest, þá getur þetta orðið æði tafsamt. Það er fyrst leiguliði, þá sveitarfjelagið, og loks landssjóður. Landssjóður á að vísu ekki að hafa nema 1 mánuð til umhugsunar, en jeg geri ráð fyrir, að tilboðið sje sent með pósti, og þá getur farið töluverður tími í að svara aftur. Ef nú mikill tími færi í þetta, þá gæti hæglega farið svo, að þessir 6 mánuðir væru liðnir áður en nokkuð er afgert. Og þá verður eigandi að byrja á nýjan leik, að leita fyrir sjer, hvort leiguliðinn vilji nota forkaupsrjettinn sinn o. s. frv. Það er líka í frv. gert ráð fyrir, að þetta muni verða töluvert vafningasamt, og jafnvel búist við, að þurfi að fara í málaferli til að fá þessu framgengt. Að því er landssjóð snertir, þá álít jeg ekki hyggilegt eða hagkvæmt fyrir hann að gefa sig mikið við kaupum og sölum á jörðum, því að jeg hefi sjeð þess dæmi, að jarðir hafa margfaldast í verði, einmitt þegar landssjóður hefir verið nýbúinn að selja.

Þá ætla jeg að minnast lítið eitt á brtt. mína. Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), tók það rjettilega fram í ræðu sinni, að með þessari brtt. væri rjettur seljanda gerður enn erfiðari. En ef háttv. deild telur sæmilegt að samþykkja þessi lög, og svo framarlega sem þau eiga að verða annað en pappírsgagn eingöngu, þá verður, að mínu áliti, þessi brtt. að fylgja með, því að það er aðgætandi, að það er ekkert hægara en að fara í kringum þessi fyrirmæli í 15. gr., sem segja, að ekki megi rifta sölu, ef liðnir eru 6 mánuðir frá því að kaup eru gerð. Menn þurfa t. d. ekki annað en halda sölunni algerlega leyndri, og um þetta þarf enginn að vita, fyr en þessir 6 mánuðir eru á enda. Enn fremur geta menn komist hjá öllum þessum fyrirskipuðu töfum, með því einfalda ráði, að dagsetja kaupin löngu áður en þau eru gerð í raun og veru. — Alt öðru máli er að gegna ef fyrirskipað er, að kaup skuli þinglesin, eins og brtt. mín fer fram á. Með því er algerlega bygt fyrir, að pukur sje mögulegt. Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta, en hefi hugsað mjer að greiða atkv. með dagskrá hv. 2. þm. Árn. (E. A.). — En jeg vil endurtaka það, að ef hv. deild sjer sjer fært að samþ. lög, sem setja slík takmörk fyrir umráðum manna yfir löglegum og rjett fengnum eignum sínum, þá verða þessi ekkert annað en „humbug“, ef þessi brtt. nær ekki fram að ganga.