13.07.1917
Neðri deild: 9. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í C-deild Alþingistíðinda. (3396)

38. mál, bann gegn tilbúningi áfengra drykkja o. fl.

Flm. (Gísli Sveinsson):

Þótt sumum virðist kann ske þetta mál ekki standa í miklu sambandi við næsta mál á undan, þá er það svo í mínum augum. Þetta frv. er borið fram að sumu leyti af líkum ástæðum og hið fyrra.

Frv. hljóðar um, að helmingur allra sekta fyrir brot á lögum um aðflutningsbann áfengis renni í sveitar- eða bæjarsjóð þar sem brotið er framið. Jeg býst við, að menn líti svo á, að hjer í Rvík verði eigi mikið um bannlagabrot, komist tollgæsla á. Jeg er nú þeirrar skoðunar, að ekki tjái, að menn sjeu hörundsárari um þessi lög en önnur. Öll lög eru brothætt, og ekki meiri ástæða til að stökkva upp á nef sjer, þótt þessi lög sjeu brotin, fremur en önnur. En valdi það hneyksli, hve mikið sje um lagabrotin, er náttúrlega altaf ástæða til að kvarta.

Þetta frv. miðar til þess að tryggja það, að bannlagabrot minki eða hverfi, aðallega þó utan Reykjavíkur, en sjálfsagt líka þar. Mönnum hefir þótt, að sveitarstjórnir hafi ekki hlutast mikið til um þetta mál, þótt þær sjeu skyldaðar til þess með bannlögunum, enda er illhægt að kúga þær til þess. En hjer er gerð lilraun til að auka áhuga þeirra í þessu efni. Það er lítt hugsandi annað en að sveitarstjórnirnar láti meir til sín taka lagabrotin, ef einhver eru, þegar sveitarfjelagið græðir á, ef upp komast. Eins mundi það glæða áhuga einstaklinganna, svo að þeir kæri, en hylmi ekki yfir. Mín skoðun er, að ef tollgæslu sje komið á í Rvík og sveitarstjórnir „interesseraðar“ í málinu, þá þurfi ekki að gera fleira fyrir bannlögin. Lögin sjálf eru nógu ströng, háar sektir lagðar við brotum í hvívetna. Það er einhlítt, að lögin mundu haldast sæmilega uppi, ef framkvæmd þeirra væri í skaplegu lagi. Framkvæmdin hvílir á lögreglustjórum, og er þeim skylt að halda uppi þessum lögum, sem öðrum. En þótt þeir, sem ber skylda til þess, geri það ekki, getur það ekki verið nein ástæða til, að komið sje upp sjerstakri bannlögreglu. Ef farið er að launa sjerstakri lögreglu, sem eigi að gæta einstakra laga, er farið út á braut, sem þjóðfjelagsskipunin gerir ekki ráð fyrir. Ef menn ætluðu að girða fyrir, að nokkur dropi komist á land, yrði að hafa röð af lögregluþjónum meðfram allri ströndinni; það mundi kosta landið ekki tugi. heldur hundruð þúsunda króna. En skottulögreglu væri ekki betur treystandi en annari, nema síður sje. Dæmi eru til, að trúnaðarmenn, sem hafa verið settir á vörð á skipum, hafa bæði stungið á sig víni og helt sig fulla. Það væri mjög misráðið, ef farið væri að launa menn sjerstaklega til að gæta þessara laga, frekar en annara.

Breyting sú, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., mun geta orðið alláhrifamikil, og jeg vonast til, að háttv. samdeildarmenn mínir finni, að hjer er um breytingu að ræða, sem getur komið að haldi.

Að lokum vil jeg endurtaka það, að menn mega ekki vera altof hörundsárir, þótt þessi lög sjeu brotin; úr því má bæta að nokkru leyti, eins og hjer hefir verið talið, eða gera tilraun til þess, en ómögulegt er að girða algerlega fyrir, að brot eigi sjer stað. Svo er um öll lög.

Jeg veit ekki, hvort þörf er á að vísa þessu máli til nefndar. (P. J.: Jú, til fjárhagsnefndar). Fyrir mjer er þetta ekkert fjárhagsatriði. Fremur væri það tillaga mín, að það gengi til allsherjarnefndar.