08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í C-deild Alþingistíðinda. (3472)

121. mál, prestsmata

Pjetur Ottesen:

Mjer þykir það vera hálfundarlegt, að hæstv. forsætisráðherra skuli vera á móti þessu frv. Hann benti rjettilega á það, að menn hefðu áður getað fengið keypta prestmötu, en gat þess þó um leið, að nokkur tregða hefði verið á því upp á síðkastið, og að sú sú tregða hefði stafað af því, að stjórnin hefði frestað sölu á kirkjujörðum og þjóðjörðum, þar til þingið hefði skorið úr því máli. En jeg sje nú ekki, að nein ástæða hafi verið til þess eða sje til þess að setja aflausn prestsmötunnar neitt í samband við sölu þjóð- og kirkjujarða, því að það er í eðli sínu óskylt, og þrátt fyrir það, þó að frestað hefði verið sölu þessara jarða, hefði að sjálfsögðu átt að selja prestsmötu eigi að síður. En það er aðgætandi, að til þess að kaupa prestsmötu hafa menn þurft að leggja alla upphæðina út í einu, svo að það hefir ekki verið heiglum hent og ekki getað aðrir en stóreignamenn. Og ef menn ættu að fara að taka bankalán til að leysa inn prestsmötuna, sem trauðla fengist fyrir minna en 6%, eða kannske ekki fyrir það, þá gæti það farið svo, að vextirnir af því láni yrðu hærri en prestsmötugjaldið. Það dylst því engum, hverjir erfiðleikar eru á því að innleysa prestsmötuna á þann hátt, sem verið hefir undanfarið, og hversu óaðgengilegt það er.

Það virðist öll sanngirni mæla með því, að prestsmatan sje seld að því leyti eigi með lakari kjörum en kirkjujarðir, að mönnum sje veittur langur afborgunarfrestur, svo að þeim, sem efnaminni eru og minni máttar, sje einnig gert það mögulegt að leysa sig undan þessari hvimleiðu og óeðlilegu kvöð.

Þegar litið er til þess, af hvaða höfuðstól prestsmatan er goldin, sem er helmingur af leigu innstæðukúgilda þeirrar jarðar, er hún hvílir á, þá er það deginum ljósara, að hjer er um geisiþungbæra kvöð að ræða, kvöð, sem, miðað við venjulega peningarentu nú á tímum, mætti með sanni kalla okur.

Það þarf t. d. ekki annað en að heyfengur bregðist eitt sumar; afleiðingin af því óhjákvæmilega sú, að kúgildin yrði gagnslítið eða ef til vill gagnslaust næsta vetur; af þessu mundi leiða hækkun á smjörverði; af þessu leiðir það, að prestsmötugjaldið getur verið hæst þegar höfuðstóllinn, sem prestsmatan er goldin af, gefur minstan eða engan arð.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta, en vona, að deildin taki þessu máli vel.