06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í C-deild Alþingistíðinda. (3697)

100. mál, úthlutun landsverslunarvara

Fyrirspyrjandi (Magnús Torfason):

Úr því að enginn annar hefir kveðið sjer hljóðs, þá vildi jeg segja nokkur orð. (Atvinnumálaráðh: Vill ekki þm. tala hærra?). — Jeg skal reyna að tala svo hátt, að stjórnin heyri það.

Það voru í rauninni góð og gild svör, sem hæstv. atvinnumálaráðherra gaf fyrir hönd landsstjórnarinnar um það, hvernig hún ætlaði sjer að haga úthlutun varanna, eða ef til vill rjettara sagt um það, hvernig hún hefði átt að haga henni, en um það, hvernig hún hefði í raun og veru hagað úthlutuninni, svaraði hann engu.

Jeg þykist vita það, að landsstjórnin, og þá ekki síst hæstv. atvinnumálaráðherra, hafi viljað, að úthlutun varanna kæmi sem rjettast niður, en jeg vil minna á það, að það er alt annað góður vilji og ásetningur en hitt, að geta framkvæmt þennan góða vilja.

Jeg vil snúa mjer ítarlegar að einstökum atriðum, sem upplýsa málið og sýna það ljóslega, að umkvörtun mín er ekki gerð út í bláinn.

Í vetur var sykur sendur vestur til Ísafjarðar. Svo í vor, þegar sykur var sendur vestur og farið var að reikna út, hversu mikinn sykur Ísfirðingar ættu að fá, þá kom það í ljós, að þeir höfðu ekki einu sinni fengið meðalbirgðir af sykri samkvæmt reglum þeim, er stjórnarráðið hefir sjálft sett. Og það sjá allir, að þetta er þeim mun verra, þar sem Ísfirðingar og sýslubúar eru mjólkurlausir flestir, og áttu því að fá sykurinn eftirstærri skamti stjórnarinnar, hlutföllin 3 móti 2, móts við mjólkurframleiðendur. Það er því beint viðurkent af stjórnarráðinu sjálfu, að Vestur-Ísafjarðarsýsla, Norður-Ísafjarðarsýsla og Ísafjarðarkaupstaður hafi orðið út undan í sykurúthlutuninni.

Um kornvörurnar get jeg látið mjer nægja að vísa til þess, að þegar vörubirgðirnar voru taldar upp síðastliðinn 30. maí, þá voru kornvörubirgðir þar til 2½, mánaðar, en þar af voru kornvörubirgðir til úthlutunar að eins til eins mánaðar, en þá voru birgðir til úthlutunar:

Í Strandasýslu til 5½ mánaðar

• - Húnavatnssýslu til 4 mánaða

• - Skagafjarðarsýslu til 5 mánaða

• - Eyjafjarðarsýslu til 53/4 mánaðar

• - Þingeyjarsýslu til 5½ mánaðar

• - Norður-Múlasýslu til 33/4 mánaðar.

• Hæstv. atvinnumálaráðherra sagði, að ástæðan til þess, að svona miklar birgðir hefðu verið sendar norður, hefði verið sú, að stjórnarráðið hefði talið hættu á því, að ís legðist að Norðurlandi, en þótt íshorfur væru, þá virtist vera ónauðsynlegt að birgja sýslurnar þá upp að vörum alt til októberloka.

Fyrst að það kom í ljós, að svona var með birgðirnar, þá hefði mátt ætla, að næsta kornvörusending hefði verið send til Ísafjarðarsýslna og -kaupstaðar, en því fór fjarri, að svo yrði.— Nei, næsta sending var send til Norður- og Austurlandsins, einmitt þangað, sem mestar kornvörur voru fyrir.

Jeg skal ekki sakast um þann skaða, sem þetta misrjetti getur orsakað oss þar vestra, þótt hann hins vegar geti orðið allmikill. Það sjá allir, að það getur munað miklu á verði vörunnar, hvort hún er keypt upprunalega fyrir hátt eða lágt verð, og nú, þegar vöruverðið hefir stöðugt farið hækkandi, er ljóst, að fjárhagslegt tjón er að þessu fyrir hjeruð þessi, og það ekki svo lítið. (Atvinnumálaráðherra brosti). En hæstv. atvinnumálaráðherra getur brosað, hann stendur með pálmann í hendinni. Hann hefir sjeð vel fyrir sínum sveitum og landbúnaðinum þar nyrðra, sem hann sjerstaklega er fulltrúi fyrir.

Eftir að talning á hestöflum fór fram kom olíusending vestur, þá er vorvertíð og síldarvertíð stóð fyrir dyrum. Við fengum — jeg játa það — í það sinn olíu nokkurn veginn á hestafl á við flesta, en þó vildi þar verða misbrestur á, því að Austfirðingar fengu mun meira. Ísfirðingar fengu alls og alls 1.200 tunnur af olíu á 1.986 hestöfl, en Austfirðingar 780 tunnur á 1.143 hestöfl, og sjá allir, að hlutfallið verður talsvert hærra hjá Austfirðingum.

Yfir þessu kvörtuðu Ísfirðingar, því að þörfin var sár hjá þeim.

Næsta olíusending til landsins var með Francis Hyde, tæpar 600 tunnur, og svo með Lagarfossi, liðlega 500 tunnur, eða alls um 1.100 tunnur. Ísfirðingar áttu svo að fá sinn hluta af þeim. En hvað skeður? Þeir fá 40 tunnur, í stað þess að þeir áttu að fá eftir hestöflum milli 2 og 300 tn., en miklu meira miðað við þörfina.

Þó er einnig vert að geta þess, að stjórnin tók ekki þessa olíu í sínar hendur. Þar var hún næsta ódjörf, enda varð einnig tilfinnanlegt misrjerti á úthlutuninni. Það er kunnugt, að bátar, sem komu olíulausir frá Kaupmannahöfn, fóru með 35 tunnur af steinolíu norður á Siglufjörð. Og fleiri dæmi þessu lík mætti telja til. Jeg trúi því vel, að hæstv. stjórn hafi viljad, að úthlutunin yrði sem rjettlátust, en það lítur út fyrir, að hún hafi ekki gert nógu kröftugar ráðstafanir til þess að framfylgja þessum góða vilja sínum. Henni átti þó að geta verið það ljóst, að full ástæða var til þess að ganga sem ríkast eftir því, að úthlutunin á þessari nauðsynjavöru yrði sem rjettust. Alkunnugt er, hversu mikil áhersla er lögð á rjettláta úthlutun í útlöndum á þessum tímum, og það hefir jafnvel borið við, að keisari veltist úr stóli sökum þess, hve úthlutun á vörum var ábótavant. Jeg vænti þess, að hæstv. stjórn sjái nú um það, að úthlutunin fari framvegis reglulegar fram en hingað til. Og jeg finn ástæðu til að brýna það fyrir henni að hafa fult yfirlit yfir það, sem gera á, en treysta ekki ofmikið undirtyllum sínum, sem verða fyrir áhrifum frá ýmsum mönnum og rugla fyrir stjórninni þeim ráðstöfunum, sem hún hefir sjálf ætlast til að framkvæmdar yrðu.

Eftir því, sem jeg veit best, hafa bjargráðanefndir þingsins ekki skift sjer neitt af þessu máli, en mjer virðist svo, sem það ættu þær að gera. Þær ættu að athuga úthlutunina og bera sig saman við stjórnina um, hvað gerlegast sje til þess að kippa henni í lag. Það er öldungis óvíst, að ekki kreppi enn meir að og að enn meiri ástæða verði til þess að hafa fullkomna gát á úthlutuninni.

Jeg get ekki varist því að líta svo á, að hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) eigi nokkra sök á því, hvernig kjördæmi það, sem jeg er fulltrúi fyrir, hefir verið afskift. Kjördæmið átti sjerstakan aðgang að honum, af þeim ástæðum, sem jeg hefi áður drepið á, og það hafði sjerstaka ástæðu til að krefjast þess, að hann stæði í þess ístaði.

Jeg skal svo að lokum leyfa mjer að bera fram svo hljóðandi tillögu til rökstuddrar dagskrár:

Í því trausti, að bjargráðanefnd taki til íhugunar úthlutun á nauðsynjavörum, gengur deildin til næsta máls á dagskrá.