17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

60. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Með lögum frá 11. des. 1891, um kynbætur hesta, er sýslunefndum veitt vald til að gera samþyktir um kynbætur hesta. Þessi samþykt getur gilt fyrir alla eða nokkurn hluta sýslunnar, og verða ? fundarmanna á fundi, sem haldinn skal um þetta mál, að greiða henni atkvæði, en atkvæðisrjett hafa þeir, sem kosningarrjett hafa til Alþingis. Það á því að vera trygt, að samþykt sje eigi gerð nema með vilja hjeraðsmanna, og þar sem svo er, þá er eigi nema rjett að ganga svo frá samþyktinni, að það sje trygt, að hún verði að notum, og frv. þetta tryggir það betur en núgildandi lög gera. Nú er, samkvæmt viðaukalögum frá 20. des. 1901, sem þetta frv., ef að lögum verður, kemur í staðinn fyrir, bannað, að graðhestar, sem eru l½ árs eða eldri, gangi lausir, nema þeir sjeu ætlaðir til undaneldis, en eftir frv. þarf að fá undanþágu í hverju einstöku tilfelli fyrir sig. Það er því allmikil framför og sýn búbót að frv.

Brot gegn lögunum varða nú alt að 50 kr. sektum til sveitarsjóðs. Þetta mun sumstaðar hafa verið skilið svo, sem sektirnar ættu altaf að nema 50 kr. Hjer er gert ráð fyrir því, að sektirnar verði 10—100 kr., og virðist það vera til bóta. Það eru stundum málsbætur fyrir brotunum, og því ekki nema eðlilegt og rjett, að sektin geti verið nokkuð mismunandi.

Jeg leyfi mjer því, fyrir hönd landbúnaðarnefndarinnar, að mæla með því, að frv. nái fram að ganga.