18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

64. mál, tollalög

Sigurður Sigurðsson:

Vjer flutningsmenn erum að sjálfsögðu þakklátir hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) fyrir vel meintar athugasemdir hans við frv. og væntum þess, að sú háttv. nefnd, er málið fær til meðferðar, athugi þær nánar. Hins vegar get jeg þó ekki stilt mig um að minnast á aths. hans um toll á óáfengu öli og »limonaði«. Jeg er ekki svo hræddur við þær afleiðingar, sem hann bjóst við. Jeg held sem sje ekki, að sú hækkun komi niður á þeim, sem vjer vildum hlífa við háum tollum. — Þeir menn, sem neyta þessarar vöru, eru tíðast menn, sem hafa ráð á að kaupa hana og neyta hennar. Jeg held því, að þessi tollur sje rjettmætur.

Aftur getur verið álitamál um hækkunina á sódavatni, þótt mjer þyki 5 altaf falleg tala. En jeg held, að vjer flutningsmenn höldum fast við hækkunina á tóbaki og vindlum.

Með hækkuninni á brjóstsykri og »konfekt« vildi jeg síst styðja að innlendri brjóstsykurgerð. Það er sú eina athugasemd, sem jeg vildi mæla með að tekin yrði til greina af athugasemdum hæstv. fjármálaráðherra (B. K.).

Annars vona jeg, að frv. hljóti stuðning hjá háttv. deild; jeg tel það eiga það skilið.