29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf ekki að lengja mikið umræður um þetta mál. Það var reifað svo vel af háttv. flm. (H. K.), þegar það kom til umr. fyrst, og í nál. á þgskj. 236 er tekið fram það, sem nefndin vill um það segja.

Eins og háttv. þingdm. hafa sjeð á brtt. nefndarinnar, leggur hún til, að lánsheimildin sje lækkuð um 10.000 kr. Það byggist á því, að nefndinni finst ekki nema rjett, að hreppsbúar leggi eitthvað fram frá sjálfum sjer af því fje, sem vantar, til þess að verkið verði fullgert. Lánið, sem háttv. flm. (H. K.) fer fram á í till. sinni, er öll upphæðin, sem talin er vanta til þess að ljúka við verkið Það er kunnugt, að sum sveitarfjelög, sem komast í líkan vanda, leggja eitthvað fram sjálf. Það ættu menn eins að geta þarna. Nefndin hefir fengið það upplýst, að þarna í hreppnum er nokkuð af efnamönnum, sem vel geta hlaupið undir bagga að nokkru leyti.

Hin athugasemdin, sem nefndin hafði að gera við till. háttv. flm. (H. K.), er sú, að henni þótti afborgunartíminn nokkuð langur. Það mun vera sjaldgæft, að lán sjeu veitt með svo löngum afborgunartíma. Í fyrra var öðrum hreppi í sömu sýslu veitt lán til rafveitu, og skyldi það borgast upp á 30 árum. Nefndinni fanst því rjettmætt, að þessi hreppur fengi sömu borgunarskilmála. Annað er það, sem nefndin leggur til, að lánið sje afborgunarlaust fyrstu 2 árin. Það getur komið sjer vel fyrir hreppinn að þurfa ekki að greiða afborgun af láninu meðan fyrirtækið er að komast í kring. Jeg vona, að háttv. flm. (H. K.) taki þessum breytingum nefndarinnar vel, og jeg vona, að þetta verði nægilegt til þess, að verkið komist í framkvæmd. Það var ekki ætlun nefndarinnar að stemma á neinn hátt stigu fyrir því.

Nefndin leggur einmitt áherslu á það, að lánið verði veitt fljótt, svo að verkið geti komist í framkvæmd sem fyrst, — að sjálfsögðu á þessu sumri.