29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Sveinn Ólafsson:

Jeg býst ekki við, að mikið þýði að mótmæla, þar sem svo hamröm og liðsterk nefnd stendur að till. sem fjárveitinganefnd. En jeg get ekki að því gert, að mjer finst það harla fljótfærnislegt af þinginu að heimila þetta lán. Hjer getur hvert sveitarfjelag sem er farið í sama kjölfarið, byrjað á stórfyrirtækjum, sem eru þeim um megn, farið í strand með þau og þá fengið fje úr landssjóði til að bjarga öllu við. Eftirleikurinn er auðveldur, og umsókn um samskonar ]án frá nokkrum tugum hreppa á næsta þingi væri ekki óeðlileg.

Eftir því, sem jeg hefi leitað mjer upplýsinga um, þá eru ýmsir vel stæðir menn í hreppnum og meira að segja nokkrir efnamenn. Kauptún er í hreppnum, allblómlegt, og skilst mjer, að það sje aðallega vegna þess, sem rafveitan er lögð. Jeg verð því að álíta, að hreppsbúar hafi ekki lagt eins mikið á sig eins og annarsstaðar, þar sem í lík fyrirtæki hefir verið ráðist, og því sje ekki ástæða til að fara að veita þeim stórlán úr landssjóði. Það gætu allar sveitir landsins komið upp hjá sjer rafveitu með þessu móti, og ekki þarf að efa þörfina á þeim. Hitt er víst, að getu til þess vantar. Þess vegna get jeg ekki greitt atkv. með þessari till. Jeg álít, að hreppnum sje kleift að koma á rafveitunni án þessa láns.