26.06.1918
Neðri deild: 56. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það er ekki mjög mikið, sem jeg hefi ástæðu til að taka fram í þessu máli, sem jeg vona að fái góðar undirtektir í háttv. deild.

Háttv. frsm. (M. Ó) hefir rjettilega tekið það fram, að landssíminn sje búinn að missa ýmsa helstu starfsmenn, sem sætt hafa því að vera við þann eldinn, sem betur brennur, hafa valið stöðu, þar sem þeim bjóðast betri laun. Jeg veit það og vel, að úti um land bíða starfsmenn landssímans eftir því, hvernig fer um þessar till., því að ef ekki verður hækkað kaup þeirra, þá treysta þeir sjer ekki til þess að halda áfram að hafa stöður sínar með höndum.

Viðvíkjandi hækkun símagjaldanna vil jeg geta þess, að komin er út reglugerð, sem aðallega er miðuð við það, sem stendur í erindi því frá landssímastjóranum, sem minst hefir verið á hjer, og gildir hún frá 1. næstkomandi mánaðar. Eftir áætlun landssímastjórans verður tekjuaukinn af þessari hækkun rúmar 100.000 krónur, og er þá hugsunin, að nokkru af því megi verja til þess að bæta laun starfsmanna símans, og þar á meðal, eftir því sem jeg hefi skilið háttv. fjárveitinganefnd, til þess að bæta laun hans sjálfs, en það verður að koma fram sem till. á sínum tíma í aukafjárlögum, með því að laun hans eru ákveðin í fjárlögum. Jeg tel mjer skylt að láta það uppi, að eftir því, sem jeg þekki til landssímastjórans, þá er hann ekki að eins mjög stjórnsamur maður og áhugasamur, heldur get jeg ekki betur sjeð en að honum sje það áhugamál að gæta sparnaðar í hvívetna. Hann telur það æskilegast fyrir sig að geta haldið áfram þessu starfi, sem hann tók að sjer í byrjun, en jeg man ekki fyrir víst, hve mikla launaviðbót hann biður um, en jeg hefi ástæðu til að ætla, að hann muni ekki hverfa frá starfinu, þótt hún verði ekki að fullu veitt, heldur að eins að nokkru, eða svo, að hann geti varið kröftum sínum óskertum í þarfir landssímans. Skal jeg svo að lokum láta þá von mína í ljós, að þingsályktunartill. sú, er fjárveitinganefnd ber fram, verði samþ.