05.07.1918
Efri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Bjarni Jónsson:

Það er brtt. á þgskj. 403, sem gefur mjer tilefni til þess að mæla nokkur orð. Jeg er sammála nefndinni um það, að ekki muni tiltækilegt að lækka upphæðina að mun, eða jafnmikið og hjer er farið fram á. Jeg hefi fyrir satt, að fólkið sje að ganga sem óðast burt af stöðinni, og er því ekki annað fært en að ganga að kröfum þess. Og þar sem sjerstaklega er níðst á kvenfólkinu, þannig að sama verkið er ekki álitið jafngott, ef það er unnið í pilsi, þá er tími kominn til að kippa þessu í lag að einhverju leyti.

Jeg get verið samþykkur 2. málsgrein brtt. á þgskj. 403, er tekur af allan vafa um það, að stjórnin þurfi ekki að vera þrælbundin við till. landssímastjóra. Að vísu er sú brtt. óþörf, því að eftir almennri málvenju og eðli málsins er sá, sem ábyrgðina ber, ekki bundinn við tillögur þeirra, sem einungis eru ráðunautar hans í því máli. En jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að tekinn sje af allur vafi og girt fyrir allar deilur. Er þá og auðsætt, að stjórnin þarf ekki að fara hærra en hún ætlar nauðsyn krefja.

Jeg get vel skilið, að mörgum manni hrjósi hugur við að heyra svo háa launauppbót í krónutali. En krónan er ekki lengur króna. Menn hafa ætlað, að sá guð væri óumbreytanlegur og almáttugur. Hann er að vísu almáttugur enn þá, en ekki er hann óumbreytanlegur, því að nú er krónan einungis 30 aura virði.

Þá vildi jeg víkja að öðru atriði í sambandi við þetta símamál. Fjelag það, sem tók að sjer að leggja ritsímann, fær enn þá óskert tillag sitt frá Alþingi, en það hefir látið símann lenda í óviðkomandi landi, sem er ófriðarland. Þetta hefir orðið til þess, að símasamband vort við heiminn er takmarkað af einni ófriðarþjóðanna, svo að lítt er við unandi. Virðist þá ekki ósanngjarnt að krefjast þess af fjelaginu, að það veitti samþykki sitt til þess, að menn gætu tekið við skeytum frá erlendum loftskeytastöðvum og birt þau. Vil jeg spyrja hæstv. forsætisráðherra, hvort hann hafi leitt þetta í tal við fjelagið og hvort samþykki þess muni fáanlegt. Hygg jeg, eftir því sem stendur í blaði einu hjer í bænum, að hæstv. forsætisráðherra sje í svo miklum kunnleikum við fjelagið, að hann muni geta komist að þessu, sjerstaklega ef það er rjett hermt hjá blaðinu, að hann hafi tekið allstórt lán hjá fjelaginu og notið til þess styrks og atbeina Andersens, forstjóra Austur-Asíufjelagsins. Þetta stendur í blaðinu og margt fleira þar að lútandi, svo sem um afhendingu fossa og fleira. Þykist jeg með þessari fyrirspurn gefa hæstv. forsætisráðherra tækifæri til þess að svara þessum getsökum opinberlega, ef hann álítur þess þörf, og vænti því svars við henni.