05.07.1918
Efri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Hákon Kristófersson:

Jeg skal játa, að þegar þetta mál lá fyrir fjárhagsnefnd til athugunar, þá leit jeg svo á, að upphæð sú, er forstjóri landssímans fór fram á, væri nokkuð stór, og gat tæplega fylgt henni, og jafnframt skal jeg taka fram, að þá er málið var á því stigi, þá átti jeg ekki kost á að kynna mjer, hvað til grundvallar lá, er hann fór fram á þessa upphæð, 40 þús. kr. Nú hefi jeg kynst málinu betur, bæði fyrir ræðu frsm. (M. Ó.) og fleiri upplýsingar, sem jeg hefi fengið, þar sem þær voru ábyggilegastar að fá. Þær upplýsingar hafa nú leitt til þess, að þrátt fyrir ýtrustu tilhneigingu til þess að fara sem sparlegast með fje landsins, þá get jeg ekki betur sjeð en að við getum tæplega neitað um þetta fje.

Aftur skal jeg fúslega viðurkenna það rjett vera hjá háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), að það er fullkomið aukaatriði, þótt síminn gefi sjálfur af sjer þetta fje. En aftur er það ekkert aukaatriði, að það fólk, er leggur sig í líma til að afla þessa fjár og vinnur að því allan ársins hring, sjái þær afleiðingar og hljóti þann ávöxt verka sinna, að laun þess sjeu svo, að það megi við una. En eftir því, sem jeg hefi kynt mjer málið, eru laun símafólksins svo frámunalega lág, að ekki nær nokkurri átt, enda þótt það sje einkum kvenfólk og þurfi því minna en karlmenn — einar 40 kr. á mánuði duga lítið í dýrtíðinni.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) reyndi að leiða rök að því, að þótt á ýmsu ylti um starfsfólk símans, þá væri það ekki eingöngu launakjörunum að kenna. Jeg held, að þetta sje rjett eftir haft, enda vildi jeg síst af öllu fara rangt með orð svo mæts manns, sem háttv. 1. þm. Skagf. (M. G ) er. Jeg held, að þetta sje naumast alveg rjett hjá honum. En um hitt er jeg sammála hinum háttv. þm. (M. G.), að þótt einstöku mönnum bjóðist betri stöður hjá fjelögum eða einstaklingum, þá getum við ekki farið í kapphlaup við þá, en hitt er veigamesta atriðið, að við gerum okkar til að launa fólkinu svo sæmilega, að það þurfi síður að leita annara staða, sem lífvænlegri eru. En þó hlýtur svo að fara, ef við gerum ekki betur en hingað til.

Það getur verið alveg rjett hjá sama háttv. þm. (M. G.), að það sje nokkuð mikið að hækka um 100%. En getur þingið þá ekki orðið sammála um, að kjör þessa fólks hafi verið svo erfið undanfarið, að það geti skoðast vel frambærilegt að bæta nú svo sómasamlega úr, að skoða megi hækkunina að nokkru leyti sem bætur fyrir eitthvað af rangindum liðna tímans? Eftir því, sem jeg hygg að það kosti að lifa hjer í Reykjavík í dýrtíðinni, þá hygg jeg, að menn geri ekki vitund meira en lifa sómasamlega, þótt þeir hafi alt að 120 kr. á mánuði, þó því að eins, að það sjeu kvenmenn, er halda spart á.

Það má nú vel vera, að eitthvað af þessu fólki hafi þessa stöðu til tilbreytingar, eða til að afla sjer vasapeninga. En jeg býst þó alls ekki við, að svo sje um helftina af því, því að eins og menn vita, er það allfjölmennur flokkur. Og eins ber vel að gæta, og það er, að fyrir símann, eins og hverja aðra stofnun, er það mjög áríðandi, að starfsmennirnir sjeu nokkurn veginn ánægðir með kjör sín, því að vitanlega getur það haft stór áhrif á starfrækslu símans, og þar af leiðandi tekjur hans. Það er gangur lífsins, að ef menn eru illa launaðir, eru menn lausari við, og segi jeg þetta þó alls ekki til þess að slá því föstu, að nokkrir misbrestir hafi átt sjer stað á starfrækslu símans undanfarið, en tek það einungis fram sem hugsunarástæðu. Vil jeg því ekki verða þátttakandi í þeirri ábyrgð, er það bakar Alþingi, ef mál þetta nær ekki fram að ganga, því að það gæti leitt til þess, að vjer mistum megnið af hæfasta starfsfólki símans, og þar á meðal ef til vill landssímastjórann sjálfan, mann, sem öllum kunnugum ber saman um að rækt hafi starf sitt með stökum dugnaði og trúmensku. Og mjer þótti það illa að orði komist, þar sem þetta orðalag í till. nefndarinnar „eftir tillögum landssímastjóra“ leiddi til þess, að því var slegið fram, að það bæri ekki að skilja svo, að landsstjórnin væri þrælbundin við till. hans. Jeg kann illa við þetta, því að jeg býst ekki við, að till. hans yrðu í nokkurn máta þrælslegar, og jeg lýsi ekki neinu vantrausti á hæstv. stjórn, þó að jeg segist álíta, að landssímastjóri muni gera till. sínar eftir bestu vitund og leggja það eitt til, sem best gegnir, og að hans till. mundu í engu lakari en sumra í hæstv. stjórn.

Því hefir verið slegið fram af háttv. 1. þm. Skagf. (M G), að þessi uppbót sje ekki í samræmi við frv. það, er nýverið var vísað til 3. umr. og fjallaði um dýrtíðarlaunaviðbót til embættis manna. Það má nú vel vera, en jeg býst helst við, að allir embættismenn landsins standi ólíkt betur að vígi en þetta fólk, sem hjer um ræðir.

Það er rjett, að verkfræðingur símans er nú á förum til móðurlands síns, þar sem hann fær stöðu. En þess vil jeg jafnframt geta, að mjer er kunnugt um það, að landssímastjórinn hefir í hyggju, að minsta kosti á næstunni, að fá mann til að taka við því starfi, sem þessi maður hefir á hendi haft.

Jeg get nú alls ekki fallist á þá stað hæfingu háttv. þm. Dala. (B. J), að krónan sje ekki orðin nema 30 aura virði. En þótt hún sje meira virði, þá raskar það alls ekki þeim rjettláta grundvelli, er hjer liggur fyrir, sem sje að ósk landssímastjórans beri að fullnægja, helst að öllu leyti.

Vona jeg því, að háttv. deild hugsi sig vel og rækilega um, áður en hún synjar þessari málaleitun samþykkis í þeirri mynd, sem háttv. fjárveitinganefnd leggur til, Og þótt sparnaður sje í öllum tilfellum rjettmætur og vel viðeigandi, þá verður að gæta þess, að hann geri ekki óþarfan og óforsvaranlegan skaða.

Fleira mun jeg ekki segja að þessu sinni, enda vona jeg, að háttv. þm. hafi þegar hugsað sjer, hvernig hjer skuli með fara, svo að þingið hafi sóma af, en engan vansa.