06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

36. mál, stimpilgjald

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það eru ekki mörg orð, sem jeg ætla að segja, því að ég vil ekki blanda mjer inn í þá orðasennu, sem hjer er háð. En mjer fanst háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) leggja aðaláhersluna á það bjargráðið, að hafa nóga peninga á reiðum höndum í landssjóðnum, en forðast lántökur. Jeg held, að skoðanir hagfræðinga um þessi efni, sjeu mjög misjafnar. Og þingið hefir sýnt það áður, þegar um stór fyrirtæki hefir verið að ræða, að það hefir treyst sjer til þess að taka lán, til þess að hrinda fyrirtækjunum í framkvæmd. Sú aðferð hefir líka gefist vel. Á sama hátt tel jeg síður en svo fráleitt, að taka lán til þess að bjargast út úr núverandi vandræðum, svo að eigi þurfi með stórkostlega auknum álögum að ganga of nærri hinu veiklaða gjaldþoli almennings.

Þótt jeg neiti því engan veginn, að peningarnir sjeu gott bjargráð og að mikið sje undir því komið, að þeir sjeu nógir til í landinu, þá verða að koma fram raddir um fleiri bjargráð, og eitt það allra mikilvægasta, sem hægt er að benda á, er kraftur sjálfra vor til þess að framleiða sem mest af innlendri fæðu og innlendum vörutegundum yfir höfuð. Þau bjargráð býst jeg við að beri á góma seinna, og skal því ekki fjölyrða um þau nú, þar sem þau snerta ekki beint þetta mál. En hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) vill vonandi veita fylgi öllu því, sem eykur bjargráðin og fjölgar þeim.