15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Frsm. fjárveitinganefndar Ed. (Eggert Pálsson):

Eins og háttv. þm. sjá, hefir till. þessi tekið breytingum í Ed. hvað orðalag snertir, en efni hennar hefir ekki verið breytt. Upphæðin er látin vera sú sama sem hv. Nd. samþykti, en síðustu málsgr. till. er að eins vikið við.

Það er gert ráð fyrir því, að dýrtíðaruppbót þeirra starfsmanna símans, sem lægst eru launaðir, hækki ef til vill að einhverju leyti. Og þá liggur í hlutarins eðli, að til þess að þeir fái þá uppbót, sem háttv. Nd. ætlaðist til, þarf að lækka þessa bráðabirgðalaunaviðbót að sama skapi sem dýrtíðaruppbótin kann að hækka. Samkvæmt þessu og með þetta fyrir augum gerði Ed. þessa breytingu á till.

Nú er ekki víst um örlög frv. þess um hækkun á dýrtíðaruppbót embættis- og sýslunarmanna landssjóðs, er afgr. var frá Ed, svo að ekki er hægt að segja um það, hvort þessi breyting á við. Ef háttv. Nd. hefði þegar sálgað frv., hefði átt við að bera fram brtt. við þessa till. og gera ekki ráð fyrir neinni hækkun á dýrtíðaruppbótinni. En nú hefir háttv. Nd. ekki enn þá felt frv., og ekki er gott að vita, nema uppbótin verði hækkuð. Er því sjálfsagt að láta þetta ákvæði standa. Auðvitað væri hægt að taka till. út af dagskrá, þangað til sjeð væri fyrir um örlög hins frv., en það mundi valda óþarfa snúningum, og er ekki víst, að tími vinnist til þess að taka till. aftur fyrir. Það gerir heldur hvorki til eða frá, þótt till. sje svona orðuð. Ef ekkert verður út hækkuninni á dýrtíðaruppbótinni, gerir þetta orðalag ekkert til, en verði hækkunin samþykt, er sjálfsagt að láta þetta orðalag halda sjer.

Jeg vil því mælast til þess, að till. verði samþykt. Það bindur ekki atkv. manna í dýrtíðaruppbótarmálinu, þó að þeir samþykki þetta. Í till. stendur einungis, ef „dýrtíðarupphæðin kann að hækka“, ekki að hún hækki. Menn geta því óhræddir greitt till. atkv., þó að hitt málið sje ekki útkljáð.