21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

68. mál, bátaferðir á Faxaflóa

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) lýsti yfir því, að hann hafi verið ósamþykkur meiri hluta fjárveitinganefndar um að veita óákveðinn styrk til ferðanna, og í annan stað væri hann ósamþykkur tillögunni um það að fela ákveðnu fjelagi ferðirnar. Jeg færði áðan rök fyrir því, að miklu líklegra væri, að Eimskipafjelagið yrði heppilegra en önnur fjelög til þess að halda uppi Faxaflóaferðunum. Það er öflugasta fjelagið, sem um er að ræða, og á því er einmitt þörf, að fjelagið, sem tekur ferðirnar, hafi bein í hendi. Því meiri líkur eru til, að starfið verði vel leyst af hendi. Um þetta voru samgöngumálanefndirnar samdóma.

Hitt getur verið álitamál, hvort heppilegra væri að ákveða hækkunina á styrknum í tillögunni. Nefndunum þótti heppilegra að fastbinda hann ekki við ákveðna upphæð. Gæti það gert örðugra um samninga við fjelög, sem vilja taka að sjer ferðirnar, og jafnvel komið í veg fyrir, að nokkur bót verði á samgönguleysinu ráðin. Svo mikið er víst, að fjelaginu, sem styrkinn hafði að undanförnu, þótti hann alls ófullnægjandi, enda hætti það reglulegum ferðum á miðju ári, og það mörgum til mikils baga. Jeg segi þetta ekki fjelaginu til lasts. Því hefir víst verið vorkunn, þar sem vitanlegt er, að kol hafa hækkað mjög í verði. En sama er um óþægindin, sem hjeraðsbúar höfðu af samgönguteppunni, að segja fyrir því. Jeg veit til, að Borgnesingar kvörtuðu; var ástandið, sem þeir áttu við að búa, þó hátíð hjá ástandinu á Suðurnesjum. Þangað var engum ferðum haldið uppi. Hefir svo mikið ólag verið á þessu, að nauðsynlegt er, að þing og stjórn reyni að greiða úr vandræðum hjeraðsbúa. Jeg hefi trú á, að Eimskipafjelagið eigi best með að sjá fyrir þörfum hjeraðsbúa, en annars eru mjer jafnkærar allar útgerðir, sem leysa starfið vel af hendi. Vil jeg og sjerstaklega geta þess, að einkis mundi fremur óskað en að skipstjórinn, sem nú hefir annast þessar ferðir, hjeldi því áfram, því að hann hefir getið sjer traust almennings og hið besta orð, sem gætinn atorku og dugnaðarmaður.