21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

36. mál, stimpilgjald

Einar Arnórsson:

Það er svo sem auðheyrt, að þetta frv. er skilgetið afkvæmi þess barlóms, sem mjög hefir kveðið við hjer í deildinni upp á síðkastið. En eins og stendur, veit jeg ekki, hvort mikið munar um þennan títuprjónshaus í ámukjafti, eins og komist var að orði hjer á dögunum. En þetta er ekki annað. Það munar lítið um þann tekjuauka, sem þetta frumv. veitir, í samanburði við það, sem þarf til þess að vega á móti fyrirsjáanlegum tekjuhalla.

Litlu einu vildi jeg bæta við, viðvíkjandi stimpilgjaldi af farmskírteinum. Hjer voru til áður lög um verðhækkunartoll á útfluttum vörum, sem hækkað höfðu í verði af völdum ófriðarins. Þessi lög hjeldust fram á sumarið 1917. Þá voru þau feld úr gildi, með það fyrir augum, að þótt verð á vörum hefði ekki lækkað frá því sem áður var, „absolut“ sjeð, þá hefði það samt lækkað „relativt“ við það, að framleiðslukostnaðurinn hefði aukist. Jeg hefði nú gaman af að sjá þá menn, sem voru með því að fella þau lög úr gildi á síðasta þingi, greiða nú aftur atkvæði með þessu. Háttv. frsm. (M. G.) skýrði þetta útflutningstoll, enda er ekki hægt að neita því, að svo sje.

Viðvíkjandi því, sem jeg hafði að athuga við 6. gr. f, viðurkendi hv. frsm. (M. G.), að þetta væri í raun og veru misrjetti, en það væri sumpart komið af því, að menn hugsuðu meira um það til bráðabirgða, hvað hægast væri að framkvæma, og sumpart væru menn að byrja að prófa sig áfram.

Það getur nú verið, að sumum þyki skemtilegt að byrja á því að prófa sig áfram með því að gera upp á milli manna og stofna til fulls misrjettis. En jeg held, að það væri ekki svo mikil hætta að leggja stimpilgjald á öll skjöl, eins og víða við gengst annarsstaðar, þótt ekkert opinbert eftirlit sje hægt að hafa með öðrum skjölum en þeim, sem ganga í gegnum hendur banka eða valdsmanna. Það getur svo farið um öll skjöl, að þau fyr eða síðar komist í hendur valdsmanna, ef málaferli koma upp. Því mætti svo ákveða, að ef skjal væri þá ekki stimplað, skuli gefinn kostur á að stimpla það innan ákveðins tíma, eða menn látnir sæta sektum þegar í stað, ef óstimplað skjal fyrirfinst. Það má hafa hvora aðferðina sem vill, en með síðari aðferðinni er meiri trygging fyrir, að stimpilskyldunni sje fullnægt þegar í stað. Menn mundu þá ekki þora að eiga það á hættu, að eiga skjöl sín óstimpluð. Úr því að farið er að gefa út stimpilgjaldslög, þá ætti að reyna að gera öllum jafnt undir höfði, sem stimpilskyld skjöl gefa út.

Þá munu menn bera því við, að sökum þess, hve strjálbygt er hjer á landi, þá sje erfiðara um alt eftirlit. En til þess að greiða fyrir með stimplun skjala mætti láta embættismenn eða sýslunar í hverjum hreppi, hreppstjóra eða hreppsnefndaroddvita, hafa stimpilmerki eða stimplaðan pappír til sölu. Með því móti mætti ganga út frá því gefnu, að eftirtekjan yrði ekki minni en eftir þessu frv. Menn verða þó að ganga út frá því, að meiri hluti manna svikist ekki undan þeim lögum, sem sett eru. Og það veit jeg, að vera muni stuðningsmönnum þessa frv. hið mesta áhugamál, að sem mestar tekjur fáist af lögunum. Í „principinu“ eru öll skjöl jafnt skattskyld, og finst mjer síst ástæða til þess að leggja skatt á þau skjöl ein, sem hafa þarf sjerstakt ómak og fyrirhöfn fyrir. Það er svo sem auðvitað, að hver fullvita dómari gengur svo frá, að sá, sem mál vinnur, beri upp allan kostnað, og þá auðvitað eins stimpilgjaldið og annan kostnað. En oft lyktar máli þannig, að á hvorugan aðila verður dæmt að öllu leyti, og er þá málskostnaður látinn niður falla. Það er ekki ætíð hægt að dæma um það, hvort Jón fer með rjett mál eða hvort Pjetur hefir rjett fyrir sjer. Þegar svo vill til, fellur stimpilgjaldið á þann, sem skjalið hefir með höndum.

Jeg sje ekki heldur hvers vegna menn eiga að sæta verri kjörum með víxli, sem seldur er til banka, heldur en ef hann er seldur til einstaks manns. Ef jeg sel víxil minn í banka, þá verð jeg að játa stimpla hann, en ef háttv. frsm. sýndi mjer þá vinsemd, að kaupa af mjer víxilinn (M. G: Það gerði jeg ekki), þá þarf jeg ekkert stimpilgjald að borga. Skýri þeir, sem geta, hvers vegna þetta á svona að vera. Jeg get ekki fengið það í mitt höfuð, hvers vegna það er. Jeg skal játa það, að mjer fyndist sanngjarnt að leggja stimpilgjald á báða. Þetta ósamræmi í þessu stimpilgjaldsfrumv. hefir verið í því síðan það varð til árið 1907.

Milliþinganefndin í skattamálunum, sem skipuð var á þinginu 1907, gerði uppkast að þessu frv. og hefir sjálfsagt komist inn á þetta, með þeim rökum, sem hún hefir fært fyrir því, að það væri ógerningur að ganga lengra en hún gerði. Rök hennar get jeg ekki viðurkent. Finst þau byggjast á misrjetti og ekki öðru.