22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

36. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Hv. 1. landsk. þm. (G. G.) vjek að því, að rjettara hefði verið, að tekjuaukafrumvörpin hefðu verið lögð fyr fyrir þingið, en jeg sje ekki betur en að enn þá sje nógur tími til þess, að þau geti náð fram að ganga.

Ástæðan til þess, að stjórnin lagði ekki tekjuaukafrumvörpin fyr fyrir, var sú, að hún ætlaði sjer í öndverðu ekki að leggja slík frv. fyrir þingið, meðal annars vegna þess, að slík frumvörp áttu mjög örðugt uppdráttar á síðasta þingi, en nú sitja sömu fulltrúar á þingi og þá, svo að það væri ekki glæsilegt útlit fyrir, að þeim mundi byrja vel. En þegar stjórnin hafði lokið rannsókn sinni á búskap þjóðarinnar árið 1917, þá sá hún, að brýn nauðsyn var á að auka tekjur landssjóðsins, og þá bar hún fram frumvörp sín. En hún gat ekki lokið rannsókn þessari fyr en rjett fyrir þing, vegna þess að bókfærsla stjórnarráðsins er mjög gamaldags, svo að ekki er hægt að sjá hvernig hagurinn stendur fyr en reikningnum er að fullu lokið. En reikningsuppgerðinni var lokið fyr en venja er til hjá landsfjehirði, og var það að tilhlutun stjórnarinnar, og þá tók hún tekjuaukana strax til yfirvegunar. En jeg skal geta þess, að nú er verið að undirbúa breyting á bókfærslunni, svo að hægt verði að fylgjast með útgjöldunum. Og hv. þm. eru stjórninni sammála um það, að nauðsyn sje að auka tekjurnar; má sjá það best á því, að frv. þetta gekk mjög greiðlega gegnum Nd., og eins var með vörutollshækkunina, og 3. tekjuaukafrv., dýrtíðarskattinum, var vísað í fyrradag til fjárhagsnefndar Nd.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) fann að stimpilgjaldinu fyrir farmskrárnar, og skal jeg játa það, að aðfinslur hans um það voru rjettar og eðlilegar. Jeg hefi aldrei dregið dul á það, að jeg er mótfallinn skatti á afurðir landsins, en hjer brýtur nauðsyn lög, því að það er knýjandi ástæða til að auka tekjur landssjóðs, og hins vegar fyrirsjáanlegt, að þetta frv. nær fram að ganga.

Jeg er alveg samþykkur háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) um, að þessi skattur eigi að eins að vera til bráðabirgða, og því samþykkur forsendum hans, en jeg get ekki verið honum samþykkur um ályktun þá, er hann dró af forsendunum, þá ályktun, að tryggara sje að hafa skatt þennan settan með sjerstökum lögum, svo að hann verði ekki til langframa. Jeg lít mótsett á það atriði; jeg tel miklu meiri trygging fyrir því, að hann verði til bráðabirgða, ef hann stendur í þessum lögum.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) kom með dæmi þess, hversu oft væri hægt að greiða stimpilgjald af sömu vörunni, en jeg hygg, að dæmi hans sje ekki rjett. Hann gerði ráð fyrir samningsgjaldi, 700 kr., og svo farmskrárgjaldi, en jeg tel víst, að samningsgjald þetta falli burt. Oft er slíku komið í kring með símskeytum einum. Annars er það, þar sem stimpillög eru, að mörg ágreiningsatriði koma fram, sem þarf að úrskurða, og svo verður vitanlega hjer, en jeg sje ekki ástæðu til að fara að ræða þau við þessa umr.

Þá fanst háttv. þm. (G. G.) óeðlilegt að greiða 100 kr. stimpilgjald af borgarabrjefi, þar sem brjefið sjálft kostaði að eins 50 krónur, en þetta rjettlætist af því, að gjaldið fyrir borgarabrjefið rennur í hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarsjóð, en stimpilgjaldið í landssjóð Ef hækka hefði átt borgarabrjefin, svo að landssjóður hefði tekjur af því, þá þurfti til þess ný lög, og þá jafnframt að skifta gjaldinu milli sveitarsjóðs og landssjóðs. Þetta er miklu einfaldara.