22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

36. mál, stimpilgjald

Framsm. (Magnús Torfason):

Að því leyti, er snertir ástæðurnar fyrir máli þessu, er nægilegt að vísa til álits háttv. fjárhagsnefndar Nd. og svo álits nefndarinnar, sem prentað er á þgskj. 272, en jeg vil þó taka það frekar fram en gert er í nefndarálitinu, að nefndin telur að eins fyrir þá sök rjett að lögleiða þennan skatt, er hefir í för með sjer mikla fyrirhöfn, umstang og almenn óþægindi, að inn í frv. hefir verið aukið ákvæði um stimpilskatt af farmskrám, svo að miklu meiri tekjuauki stafar af frv. þessu en stimpilgjöld gefa eftir venjulegum grundvelli.

Um fyrstu brtt. nefndarinnar vil jeg láta mjer nægja að vísa til nefndarálitsins, og það því fremur, sem með öllu er óvíst, að frv. gildi sem lög lengur en eitt ár. Þegar um svo stuttan tíma er að ræða, er með öllu óþarft að fara að búa til stimpilmerki. Annars er till. að öðru leyti mest orðabreyting.

Um 3 brtt. a hjá nefndinni vil jeg taka fram, að óljóst er í frv., hvort stimpilgjaldið á að vera 10 kr. eða alt framlag í fjelagið eigi að vera minst 10 kr. þegar staðfestingar er leitað. Brtt. miðar til að taka af allan vafa um þetta.

Þá er 4. brtt. b, um að orðin „Vígslubrjef með 1 krónu“ falli niður. Það er af athugaleysi við meðferð málsins í háttv. Nd., að þetta er ekki felt niður, því að vígslubrjef eiga, eins og önnur leyfisbrjef, að stimplast með 5 krónum.

Við 6. gr. d ber nefndin fram þá efnisbreytingu, að þegar launin eru 4.000 kr. eða meira, þá stimplist veitingarbrjefið með 20 kr., í stað 16 kr., eins og frv. gerir ráð fyrir. Þegar launin hafa náð þeirri upphæð, má segja, að þau sjeu orðin góð, og þá ekki of mikið, þó að stimpilgjaldið sje miðað við ½% af lægstu upphæð.

Við 6. gr. ber nefndin fram brtt. Byggingarbrjef eru örsjaldan þinglesin, rjett einstöku sinnum húsaleigusamningar, en aftur eru alloft þinglesnir grunnleigusamningar í kaupstöðum. En gjald þetta er vanalega lítið, því að víðast eru lóðirnar litlar og ódýrar; venjulega greiða húsmenn í sjávarþorpum 12—20 kr. árgjald af grunni sínum. Gjald þetta mun því oftast ekki nema meiru en 3 kr. af grunni hverjum.

8. brtt. nefndarinnar er um að lækka um helming stimpilgjald af erfðaskrám, eða færa það úr 10 kr. niður í 5 krónur. Það er oftast enginn ávinningur að því fyrir þann, er gerir erfðaskrárnar, og vanalegast er einvörðungu um litlar upphæðir að ræða; það er því ekki ástæða til að leggja hátt stimpilgjald á það. En auk þess gæti hátt stimpilgjald á erfðaskrám leitt til þess, að erfðaskrárgefendur hliðruðu sjer heldur hjá því að fara til notarii publici er þeir semdu erfðaskrárnar, og það er ekki holt að draga úr því. Það er best, að þær sjeu sem tryggast og lögformlegast úr garði gerðar, og vottorð notarii publici fyrir undirskrift erfðaskrárgefanda miðar að því.

11. brtt., við 10. gr., er talsverð efnisbreyting. Till. þessi kemur til af því, að þegar stimpla á allar farmskrár, þá getur það hæglega eins komið fyrir, að farmskrá sje skotið undan stimplun, eins og að skip láti frá landi án þess að greiða útflutningsgjald. Nefndinni hefir því þótt rjett að gera ráð fyrir þessu, og hefir því tekið það upp í greinina.

Síðast í 10. gr. er gert ráð fyrir, að skjóta megi úrskurði til yfirrjettar, en í 13. gr. stendur, að skjóta megi málinu til dómstólanna. Þetta fellur ekki saman. Samkvæmt 13. gr. má fara til hæstarjettar með mál um stimpilskyldu eða upphæð gjaldsins, en samkvæmt 10. gr. er ekki hægt að fara lengra en til yfirdómsins með mál þau, er varða beinlínis mannorð manna. Það sjá allir, að þetta nær engri átt og að það er sjálfsagt, að hægt sje að reka mál fyrir brot gegn 10. gr. alla leið til hæstarjettar. Að því miðar brtt. nefndarinnar.

12. brtt. nefndarinnar er til þess gerð, að færa 12 gr. frv. til betra máls.

Loks er 13. brtt. nefndarinnar við 14. gr.; þar er nefndin ekki á eitt sátt. Jeg fyrir mitt leyti get ekki greitt frv. þessu atkvæði mitt nema því að eins, að það verði látið gilda til 1921, því þó að við ættum að endurskoða frv. að ári, þá væri ekki hægt að gera það svo, að vel væri, því að þá vantaði alla reynslu fyrir lögunum og reikningarnir væru ekki endurskoðaðir. Endurskoðun á lögunum næsta ár gæti því ekki gert annað en að fella niður skattskylduna af farmskránum, en það er aðalatriði laganna og hið eina í þeim, er gefur verulegar tekjur. Og þar sem nefndin leggur til, að frv. sje samþykt einmitt vegna þessa ákvæðis, þá væri það býsna einkennilegt að ætla sjer nú þegar að endurskoða þau á næsta þingi til þess eins að fella þetta ákvæði niður. En komi fram verulegir gallar á lögunum, þá er jeg viss um, að hæstv. stjórn kemur fram með lagfæringar á þeim.

Að síðustu skal jeg enn þá taka það skýrt og skorinort fram, að nefndin er með frv. þessu eingöngu vegna þurftar landssjóðsins á tekjuauka.