04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (1686)

107. mál, verðlagsnefndir

Pjetur Þórðarson:

Nú hefir allmjög verið rætt um nauðsynina á að afnema verðlagsnefndina, og ætla jeg mjer ekki að endurtaka það, sem sagt hefir verið, en get fallist á, að nokkur ástæða sje til þess að breyta fyrirkomulaginu.

Hins vegar hefi jeg ekki getað fallist á, að ekki geti verið jafnmikil þörf á verðlagsnefndum í einstökum hjeröðum sem í bæjarfjelögum.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) gat þess áðan, að tilraunir nefndarinnar til þess að hafa áhrif á verðlag á vörum, hafi orðið árangurslitlar. En jeg held, að um þetta sje ekki hægt neitt að fullyrða. Jeg hygg, að ekki hafi verið hægt að búast við, að afleiðingarnar af ákvæðum hennar kæmu fram í beinum gróða landinu til handa. Nefndin gat auðvitað ekki gert annað en jafna verðið, svo að fjeð rynni ekki um of úr einum vasanum í annan. Og jeg býst við, að þessu sje svo farið enn þá, sjerstaklega um stærri bæi sem Reykjavík. En lítilsverðara er það ef til vill fyrir önnur hjeruð. Þó hygg jeg, að það gæti haft sína kosti, að sama verðlag gilti ekki um alt land, og að nefndirnar gætu gert gagn í hjeruðum, eins og í bæjarfjelögum. Þar af er brtt. mín sprottin. Jeg vildi láta heimildina einnig ná til hjeraða, sem vildu skifta sjer af verðlagi á vörum. Nýlega mátti sjá hjer í blaði, að í einni sveit á landinu höfðu sveitarbúar komið sjer saman um verðlag á innlendri vöru. Jeg hygg því, að ekkert mæli á móti, að sú heimild sje veitt, sem farið er fram á í brtt. minni.

Það hafði komið til tals í nefndinni, sem um málið fjallaði, að heimildin næði út fyrir bæjarfjelög. En þau vandkvæði þóttu á þessu, að ákvæði nefndanna gætu rekið sig hvert á annað, nema skipuð væri yfirallsherjarnefnd, til þess að jafna millum nefndanna. En jeg held, að stjórnin sje sjálfkjörin yfirallsherjarnefnd, til þess að taka í taumana, ef verðlagið rekst á. Jeg álít, að það sje mjög svo mikils varðandi, að þessi heimild sje til, og að hún geti beinlínis orðið til þess, að koma í veg fyrir, að óþarfir kaupsýslumilliliðir beri stórgróða frá borði.

Mjer er kunnugt um, að er fyrst var ákveðið verðlag á smjöri, stafaði það að mestu leyti af því, að einstakir menn í Reykjavík voru farnir að fara á móti smjörseljendunum, kaupa af þeim smjörið og selja óhæfilegu verði. Þess vegna vænti jeg, að þm., sem vilja hafa einhvern hemil á þesskonar okri, sætti sig við brtt. mína.

Jeg get ekki verið samdóma hv. þm. S.-Þ. (P. J.) um það, að verðlagsnefndir geti ekki haft fullkominn hemil á þessu, auk þess sem útflutningsnefnd mundi hafa um verðlag á fiski. Oft stendur svo á, t. d. í Reykjavík, að þegar lítið er um nýjan fisk, er hætt við að geti orðið mismunandi verðlag á honum. Hitt er annað mál, að verðlag á söltuðum fiski skapast af sjálfu sjer.

Jeg skal geta þess, að með brtt. hafði jeg ekki að eins í huga stærri kauptún, heldur og sveitir, og vona, að það þyki sanngjarnt, að þessi heimild verði til, ef einhverjir kynnu að álíta, að þyrfti að nota hana.

Sumir hafa látið það í ljós, að ef frv. yrði samþ., þá vantaði jafnvel í það ákvæði um það, hvernig verðlagsnefndirnar yrðu skipaðar; hvort framleiðendur ættu t. d. að eiga sæti í þeim. En slík ákvæði heyra undir reglugerð þá, sem heimiluð er í frv.

Jeg tek undir það, sem hv. framsm. (S. St.) sagði við 2. umr. þessa máls, að hjer er þetta ekki það kappsmál, að jeg vilji gera mikið veður út af því. Jeg álít það í sjálfu sjer ekki svo mikils vert; en hins vegar vona jeg, að brtt. mínar nái fram að ganga.