04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (1690)

107. mál, verðlagsnefndir

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla ekki að fara að tala frekar um málið í heild sinni, vil þó láta þess getið, að jeg álít hyggilegra, að hafa eina allsherjarverðlagsnefnd, heldur en margar. Auðvitað held jeg, að hv. deildarmönnum sje þetta ljóst, og þarf jeg því ekki að fara frekar út í þá sálma. Hitt vil jeg taka undir með hv. nefnd, að það er jafnvel dálítið athugavert við að gefa bæjarfjelögum og þó einkum mjög smáum bæjarfjelögum þetta vald. Bæjarstjórnin eða sveitarstjórnin getur verið svo skipuð, að ekki væri tekið eins mikið tillit og þyrfti til allra kringumstæðna. Jeg held nú reyndar, að þessu valdi yrði ekki misbeitt í kaupstöðunum, en hins vegar álít jeg ekki rjett að veita sveitarfjelögum það vald, sem hv. þm. Mýra. (P. Þ.) vill veita þeim. Jeg held, að það hljóti að vera hverjum manni ljóst, að það geti verið alveg ófært þar sem ef til vill þeir væru kaupmenn, sem flestum sveitarmönnum væri illa við. Að vísu væri það oft kaupmannanna sök, en hætt er við, að farið yrði of langt í því, að þrengja um of að þeim. Ef ætti að fara út fyrir kaupstaðina, þá ætti að takmarka þessa heimild við sýslurnar, en ekki við sveitirnar eða sveitarstjórnirnar, og væri það nokkuð meiri trygging fyrir því, að litið væri rjett á málið, en eigin hagsmunir ekki látnir mestu ráða. Og þar að auki yrði þá úr meira mannvali að velja, því að í sveit, þar sem búa um 200 manns, gæti verið örðugt að finna 5 menn, er gætu rækt þetta starf sómasamlega. Mjer finst aðaltill. hv. nefndar nógu athugaverð, en ef fallast ætti á till. hv. þm. Mýra. (P. Þ.), þá yrði þetta mál ófært.