22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

36. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Torfason):

Það er út af orðum háttv. 2. þm. G. K. (K. D), að jeg tek aftur til máls. Hann sagði, að samkvæmt forsendunum hefði nefndin ekki átt að leggja það til, að frv. yrði samþ. Jeg sje ekki betur en að þar sem hann vísar til forsendna þeirra, sem koma fram í nál. Nd., þá stefni orð hans til þeirrar háttv. nefndar líka. (K. D.: Alveg rjett). En nú þykir það ekki álitamál, að teknanna sje full þörf, og vorum við því neyddir til að leggja það til, að frv. verði samþykt, þrátt fyrir það þótt við gerum það nauðugir.

Þetta eru að vísu þungar kvaðir, en með öðru móti er ekki hægt að fá mikið í aðra hönd.

Sami háttv. þm. (K. D.) vildi, að nefndin fyndi aðrar nýjar leiðir, t. d. útflutningsgjald. En þess verður að gæta, að ef lagt væri fram frv. um útflutningsgjald, og alt væri sundurliðað, þá mundi það alls ekki ná fram að ganga hjer á þingi. En það er erfitt að finna skattstofna þegar illa árar, eins og nú, og atvinnuvegir eru að rýrna og sumir komnir í kalda kol.

Um undirbúning málsins er það að segja, að hann hefir verið þó nokkur. Það var fyrst borið fram af skattanefndinni 1907 og hefir komið fram oftar á þingi síðan.

Um brtt. nefndarinnar um framlenging víxla skal jeg geta þess, að nefndin leit svo á, að það væri í rauninni ekkert til, sem kallast framlengdur víxill, heldur væri þar um nýjan víxil að ræða.

Gjaldið er hjer ekki miðað við gjald það, sem bankarnir taka, því að, eins og kunnugt er, þeir leggja þyngri kvaðir á þegar víxillinn er endurnýjaður, en hjer haldast sömu kvaðir, en nefndin leit svo á, að það væri ekki rjett að veita mönnum ívilnum fyrir að ríða víxlum.

Skipstjórar hafa oft ekkert að segja yfir farmskírteinum og geta jafnvel ekki sjeð um þetta. Ef skipstjórar láta eitthvað fara með skipinu óstimplað, þá er það valdsmannanna að athuga það, en vitanlega taka þeir tillit til þess, hve syndin er stór.

Jeg verð að halda því fram, að meiningarlaust sje að vera að samþykkja stimpillögin fyrir að eins eitt ár, heldur eigi þau að gilda til 1921, eins og frv. gerir ráð fyrir.