01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (1763)

56. mál, fólksráðningar

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Það, sem jeg heyrði af ræðu hv. þm. Dala. (B. J.), fanst mjer heldur styðja frv. á þgskj. 207 en hitt. Hann hafði að vísu ýmislegt við það að athuga, og flestar aðfinningar hans við það voru að mínu áliti meira og minna á rökum bygðar. En mjer skildust athugasemdir hans fara í öfuga átt við brtt. á þgskj. 261. Mjer skildist hann, sem sagt, vilja ganga lengra en frv., og herða á ákvæðum þess, fremur en draga úr. (B. J.: Það er rjett!). Meðal annars gat hann þess, að rjett væri að hafa ráðningastofur víðar en í Reykjavík. Þessu er jeg í sjálfu sjer ekki mótfallinn. En hjer verður fyrst að líta á kostnaðarhliðina. Þetta myndi vitanlega hafa nokkuð mikinn kostnað í för með sjer. En það má líka taka til greina, að þar hlýtur að vera mest þörf þessara ráðningastofa, sem fólkið er margt, en síður þörf þar sem það er fátt. Þar er hægra að ná til fólks, og þar þekkja bændur í nærliggjandi sveitum svo að segja hvern mann. En svo er ekki um fólksmarga kaupstaði, eins og Rvík og Hafnarfjörð. Þar þekkja kaupstaðarbúar ekki einu sinni hver annan, hvað þá að bændur úr sveitum, nær eða fjær, geti valið úr eftir kunnugleika. Eftir því, sem fólkinu fjölgar, verður kunnugleikinn minni. Af því leiðir, að á slíkum stöðum er meiri þörf ráðningastofu.

Með þetta fyrir augum er það lagt til að setja upp ráðningastofu hjer í Reykjavík. Nú er komið svo, að jafnvel menn úr næstu sveitum eiga mjög erfitt með að fá fólk í Reykjavík. En það er ekki af því, að fólkið sje ekki til, heldur af hinu, að bændur þekkja það ekki og vita ekki af því.

Hv. sami þm. (B. J.) áleit, að ef þessar brtt., á þgskj. 261, yrðu samþyktar, þá yrði frv. verra en einkis nýtt. Jeg er honum í raun og vera samdóma um þetta. Jeg tel það ekki aðalatriði frv. að heimila stjórninni að setja hjer fólksráðningaskrifstofu. Hitt tel jeg miklu. meira vert, að landsstjórnin hafi ráð á að ráðstafa fólki, ef þörf gerist; en vitanlega áður en það er of seint og fólkið orðið þurfalingar. Hv. sami þm. (B. J.) áleit líka, að þó að 2. gr. væri feld, þá væri ekki ástæða til að fella 4. gr., og er það rjett. Hann gat þess líka um 6. gr., að ekki væri meiri ástæða til að heimta læknisvottorð af fólki, sem ræðst eftir 2. gr., en öðru fólki, sem ræður sig í kaupavinnu eða vist. Jeg er honum einnig samdóma um þetta. En jeg býst við, að það hafi vakað fyrir þeim, er sömdu frv., eða mestan þátt eiga í því, að það er orðið til, að um það fólk gæti verið að ræða, sem brostið hefði nauðsynlega aðhlynningu og hreinlæti, og gæti því hafa tekið ýmsa næma sjúkdóma, svo sem kláða eða önnur óþrif, og væri því nauðsynlegt, að menn hefðu vottorð um, að svo væri ekki. En þetta getur líka átt við efnabetra fólkið, sem við betri kjör á að búa. Og sumir næmir sjúkdómar munu vera einna tíðastir meðal þess fólks, sem við best kjör á að búa.

Jeg heyrði ekki nema lítið af ræðu hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). En að því leyti, sem jeg heyrði ræðu hans, gat jeg ekki almennilega skilið hugsanasambandið milli brtt. hans og þess, er hann sagði. Hann gat þess, að það væri of seint að ráðstafa fólki er það væri orðið bjargarvana. Jafnvel þótt orðalag frv. megi skilja á þann hátt, þá er það dálítið langsótt, og vitanlega er til þess ætlast í frv. að ráðstafa fólkinu áður en það er orðið bjargarvana. Jeg geri ráð fyrir, að því eigi að ráðstafa þá er útlit er fyrir, að það geti ekki fætt sig og klætt á eigin ramleik. Jeg kann verst við þau tvö orð í frv. „ske“ og „bjargarvana“. Nú fanst mjer það hugsun hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að ef þetta orð, „bjargarvana“, væri strikað út úr frv., þá yrði það aðgengilegra. Hefði hann þá átt að koma með brtt. um að fella það orð burtu. Jeg er honum samdóma um, að þetta orðalag er óviðfeldið, og vil, að landsstjórnin láti skríða til skarar fyr en fólk er orðið bjargarvana og án tillits til þess, hvort sjeð er fyrir því eða ekki. Jeg vil láta ráðstafa öllum, sem ekkert gera, af því að þeir annaðhvort vilja ekki eða nenna því ekki. (E. A.: Hver ætli vilji taka það fólk?). Þeir verða margir, sem vilja það, því að þótt margir unglingar t. d. sjeu ódælir og latir hjer í Reykjavík, þá verður alt annað uppi á teningnum, er þessir sömu unglingar koma upp í sveit, til fólks, er með þá kann að fara.

Út af athugasemdum hv. þm. Dala. (B. J.) og annara, gagnvart þessu frv., get jeg lofað því fyrir nefndarinnar hönd, að það skal verða athugað til 3. umr. Um leið vil jeg fara þess á leit við hv. flm. till. á þgskj. 261, að þeir taki þær aftur að þessu sinni og láti þær bíða til 3. umr. Það er ekki óhugsandi, að samkomulag geti náðst milli meiri og minni hl. nefndarinnar áður en lýkur.