15.06.1918
Neðri deild: 50. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í C-deild Alþingistíðinda. (2106)

96. mál, verðlag á vörum

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg hefi ekkert á móti því, að frv. sje vísað til nefndar, og hefi jeg sist á móti að vísa því til bjargráðanefndar. þar á annar meðflm. minn að frv. sæti, og málið getur vel átt heima í þeirri nefnd. Jeg þarf því raunar ekki að svara hæstv. forsætisráðherra frekar, Hann virtist vera óánægður með, að málið var tekið á dagskrá í dag. En á því á jeg enga sök. Það er hæstv. forseti einn, sem því ræður.

Viðvíkjandi því, að það hefði átt að taka þetta reikningsmál fyrir sjerstaklega, sem þá hefði átt að vera helst með fyrirspurn, þá hefi jeg því að svara, að það virðist þýðingarlítið fyrir suma að koma með fyrirspurnir, þegar stjórnin lætur sjer sæma að humma þær fram af sjer þegjandi, eins og dæmi eru til að hún hefir gert. Jeg á hjer ekki við fyrirspurn mína út af drætti á birtingu ensku samninganna. Henni hefir í raun og veru verið svarað með því, að farið var að birta samningana strax eftir að hún kom fram. En á öndverðu þingi bárum við 2 deildarmenn fram fyrirspurn til stjórnarinnar, sem leyfð var hjer í deildinni. En hæstv. stjórn hefir hingað til skotið því fram hjá sjer að svara henni, og ætlar sennilega að stinga henni undir stól. Jeg þykist því hafa ástæðu til að ætla, að það geti brugðist til beggja vona með árangurinn af því að koma fram með fyrirspurnir til stjórnarinnar, og þykist jeg ekki hafa neina tryggingu fyrir, að þeim yrði sint.