16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (2113)

96. mál, verðlag á vörum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg ætla ekki að segja margt um þetta frv. nú, vegna þess, að hv. flm. (P. O.) tók alt fram, sem um það þarf að segja, þegar málið var hjer til 1. umr. Að frv. þetta kemur nú fram, eftir að hafa hvílt sig nokkuð lengi, stafar af því, að í hv. Ed. hefir nú verið felt frv., sem bjargráðanefnd bar fram hjer í deildinni og afgreitt var hjeðan. Jeg þarf ekki að taka það fram, hvers efnis frv. var; hv. þingdeildarmenn kannast allir við það. En eftir að það frv. var fallið í hv. Ed., þá þótti nefndinni rjett, að þetta kæmi fram. Við flm þessa frv. höfum ekki skift um skoðun, síðan við fluttum það. Við litum enn svo á verðlagsnefndina hjer í Reykjavík, að verksvið hennar sje í raun og veru alveg horfið, og því megi leggja hana niður. Það hefir verið tekið fram í nál. og færð rök að því, að verðlagsnefndin sje nú orðin óþörf. Líka var með skýrum rökum sýnt fram á það í framsögu málsins í upphafi. Mjer finst því, að þingið geti vel lofað verðlagsnefndinni að eiga frí hjer eftir. Og mjer finst ekki ótilhlýðilegt, að það vilji hafa hönd í bagga með, að fje landsins sje ekki eytt fyrir lítið eða ekkert starf, því það er óhætt að ganga út frá því, að starf verðlagsnefndarinnar verði ekki síður árangurslítið hjer eftir en hingað til.