16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

96. mál, verðlag á vörum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg verð að mótmæla því, fyrir hönd okkar flm. þessa frv. og meðnefndarmanna minna í bjargráðanefndinni, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að framkoma frv. væri ærumeiðandi árás á verðlagsnefndina eða einstaka menn hennar. Ef hv. þm. (B. J.) hefir lesið nál. bjargráðanefndar í þessu máli, þá sjer hann, að nefndin viðurkennir, að verðlagsnefndin hafi unnið allmargbreytt og umfangsmikið starf, en bendir um leið til, að lítill árangur hafi orðið af því starfi. Það er því fjarri öllum sanni, og í alla staði ósæmilegt, að viðhafa þau orð, að flm. frv. eða bjargráðanefnd hafi viljað gera ærumeiðandi árás á þessa menn. En hins vegar finst okkur óþarft að láta verðlagsnefndina sitja, þegar þingið hefir tekið af henni það hlutverk, sem hún átti að inna af hendi í upphafi. En bjargráðanefnd vildi í þess stað veita bæjarstjórnum heimild til að óska eftir því, að verðlagsnefndir væru skipaðar þar, sem þörf gerðist, og landsstjórninni yrði veitt heimild til að verða við þeim óskum, og kosta þá sjálfar starf þeirra.

Þó ekki sjeu mikil útgjöld við þessa nefnd, þá hefir reynslan sýnt, að þau geta orðið svo mikil, að það sje þess virði að spara þessa upphæð, þegar svo lítið er í aðra hönd, eins og raun er á orðin. Og nú er mikill hluti af starfi hennar kominn í aðrar hendur, svo árangurinn af starfi hennar hlýtur að verða enn minni hjer eftir en hingað til.