16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í C-deild Alþingistíðinda. (2117)

96. mál, verðlag á vörum

Pjetur Ottesen:

Út af ummælum hv. þm. Dala. (B. J.) neyðist jeg til að segja nokkur orð, þó hv. frsm. (S. St.) hafi reyndar tekið fram það, sem var aðalatriðið, að ummæli hv. þm. (B. J.) um, að með frv. hefði verið gerð árás, og það jafnvel ærumeiðandi árás, á verðlagsnefndina, væru með öllu ástæðulaus. Frv. var ekki sprottið af því, að gera ætti árás á verðlagsnefndarmennina, hvorki þá, sem sæti eiga í þessari hv. deild, nje aðra. En við flm. lítum svo á, að starf verðlagsnefndarinnar væri svo vaxið, að ekki væri ástæða til, að hún hjeldi því áfram, heldur jafnvel hið gagnstæða. En að við flm. höfum ætlað okkur að hefja persónulega árás á þá menn, sem í verðlagsnefndinni eru, nær engri átt. Og mjer þykir það undarlegt, að jafnmentaður maður og vel viti borinn og hv. þm. Dala. (B. J.) er, sem auk þess er kennari við æðstu mentastofnun landsins, háskólann, skuli geta fengið af sjer að segja annað eins og þetta, enda væri bægurinn hjá að draga hv. þm. (B. J.) fyrir lög og dóm, fyrir slík ummæli, ef hann ekki nyti þinghelginnar. (B. J.: En ef jeg gæti sannað það). Hv. þm. (B. J.) getur ekkert sannað og ekki fært neinar líkur í þá átt.

En viðvíkjandi því, að við hefðum eins vel getað snúið okkur til stjórnarinnar og farið þess á leit við hana, að hún notaði ekki heimild þessara laga, þá fanst okkur betra, að þingið alt segði stjórninni þetta í því formi, sem ekki væri hægt að misskilja. Þá væri meiri trygging fyrir því, að stjórnin virti bendingu í þessa átt ekki að vettugi.