25.05.1918
Efri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

68. mál, bátaferðir á Faxaflóa

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Tillaga þessi er til orðin í samráði beggja samgöngumálanefnda þingsins. Nefndirnar voru þó í talsverðum vanda með að ráða fram úr þessu máli. Faxaflóabáturinn er þurftarfrekastur allra flóabáta, og er það eðlilegt, bæði vegna stærðar hjeraðanna, sem að flóanum liggja, og mannfjölda, og eins vegna þess, að hjeruðin eru í nágrenni Reykjavíkur; eykur það að mun viðskiftin og flutningsþörfina. Faxaflói var líka fyrstur um að fá slíkan bát, og hefir það staðið í áratugi. Jeg skal ekki rekja þá sögu hjer, þótt fróðleg gæti verið. En eins og að líkindum lætur hefir flutningsþörfin aukist stórum á síðustu árum, vegna vaxandi framfara, og það, sem nú skiftir mestu máli, er það, að á síðustu missirum hafa flutningarnir verið allsendis ófullnægjandi. Í fyrra komust þeir þó fyrst í kalda kol og hafa engri áætlun fylgt síðan. Þegar „Ingólfur“ svo bilaði í vetur, keyrði þó fyrst um þverbak. Síðan hafa engar ferðir verið suður á bóginn. Að vísu hefir verið annast um póstflutninga til Borgarness, og hefir fólk verið flutt um leið á milli. En þessar ferðir hafa þótt mjög ófullnægjandi, og eru samgöngumálanefndir óánægðar með þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið.

Mótorbátur hefir verið ráðinn til þess að annast flutningana, en fólksflutningar með mótorbátum um þessar slóðir ættu ekki að eiga sjer stað. Mótorbátar eru því ófærir til að annast reglulegar ferðir hjer um slóðir. Fólk þyrpist fyrirhyggulítið út í bátana, sem von er, er því er brýn nauðsyn að komast ferða sinna, en engin ráð eru til að bjarga lífinu, ef eitthvað út af ber.

Nú er þess að gæta, að flutningsþörfin er nokkuð misjöfn á þessu svæði. Mesta þörfina hefir Borgarnes. Borgarnes er orðið einskonar miðstöð fyrir ferðalög milli Norður- og Suðurlandsins, og er auk þess aðalkauptúnið í víðáttumiklum og búsælum sveitum. Flutningsþörfin er ekki eins mikil fyrir sunnan Reykjavík, en eigi að síður þarf að sjá vel fyrir þeim hjeruðum. Það gæti ef til vill orðið mestur hagnaðurinn fyrir útgerð flóabátsins, ef hann annaðist að eins Borgarnesferðir og þær ferðir einar að. auki, sem gæfu mestan arð. En hjer þarf á tvent að líta, bæði á hag útgerðarinnar og á hag hjeraðsbúa. Fer hagur útgerðar og hjeraðsbúa að nokkru leyti saman, en ekki að öllu. Hugkvæmdist nefndinni, að Eimskipafjelag Íslands væri best til þess fallið að leysa þennan vanda af hendi. Eftir upplýsingum frá stjórn Eimskipafjelagsins er reyndar ekki hægt að búast við, að fjelagið gæti í bráð tekið þessar flóaferðir að sjer, en ekki tók stjórnin þvert fyrir það, og væri því vel, að þing og stjórn ýtti á eftir. Við þetta er tillaga samgöngumálanefndar miðuð. Nefndin gerði ráð fyrir, að þetta fyrirtæki yrði fremur einhliða í höndum einstaklinga en ef Eimskipafjelagið fengist til að reka það. Það mun ekki vera auðvelt að samrýma hagsmuni allra, sem að þessu mundu standa, útgerðarinnar og hjeraðsbúa, og eins einstakra sýslna og sveita. Því betra og stærra sem skipið verður, því meiri hætta er á, að smástaðirnir yrðu út undan, en fyrir þeim verður samt að sjá.

Rammar skorður þyrfti að setja við því, að hagur smærri stöðvanna væri borinn fyrir borð. Um það þarf að hugsa þegar til samninga kemur, við hvaða fjelag sem það nú verður. En ekki er líklegt, að góður bátur fáist, ef áætlaður styrkur til bátaferða á Faxaflóa verður ekki hækkaður. Þess vegna hefir nefndin látið fylgja tillögu sinni heimild fyrir stjórnina til þess að hækka styrkinn, ef brýn nauðsyn krefur. Í venjulegu ári ætti engan styrk að þurfa til þessara ferða. Því að það ætti að vera arðvænleg atvinna að annast flutninga þar, sem nóg er að flytja, bæði fólk og farangur. En eins og nú er ástatt mun ekki vera hægt að ná góðum samningum um bátaferðir, nema drjúgur styrkur sje veittur. Fjárveitinganefnd hefir athugað þetta atriði og ljeð því samþykki sitt, en látið fylgja ummælum sínum varnaðarorð um, að styrkurinn megi ekki fara fram úr góðu hófi.

Vona jeg, að jeg hafi nú drepið á flest aðalatriði þessa máls, og vænti þess, fyrir hönd samgöngumálanefnda, að deildin samþykki tillöguna.