25.05.1918
Efri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

68. mál, bátaferðir á Faxaflóa

Eggert Pálsson:

Það hafa áður legið fyrir þessari deild tillögur um hækkun á styrk til flóabáta, og er ekki nema eðlilegt, að sama nauðsyn sje til að hækka styrkinn til Faxaflóabáts. Jeg mundi ekki heldur leggja á móti sanngjarnri hækkun til þessa báts, frekar en annara. En tillagan, sem fram hefir komið, hefir ekki fallið í mitt geð. Kemur það fram í umsögn fjárveitinganefndar, að hún var ekki öll á einu máli, og er það jeg, sem var valdur að ágreiningnum. Orsökin er sú, að mjer líkaði ekki orðalag tillögunnar. Tillagan er miðuð við ákveðið fjelag, Eimskipafjelagið, og engin ákveðin hækkun á styrknum til Faxaflóabáts er nefnd. Það er þetta tvent, sem jeg hefi við till. að athuga.

Í fyrsta lagi sje jeg ekki ástæðu til að nefna í till., að bátsferðirnar verði fremur faldar á hendur Eimskipafjelaginu en einhverju öðru fjelagi. Ef þetta ákvæði verður látið standa, munu önnur fjelög ekki koma til greina, ef Eimskipafjelagið fæst til að annast ferðirnar. Og virðist það harla óviðfeldið. Því að hjer ætti að sjálfsögðu að sæta bestu kostunum, hvaða fjelag svo sem býður þá. Og því síður ætti að fela „Eimskipafjelaginu“ rekstur þannig lagaðra flóabáta, ef annað eins gott og má ske betra tilboð fæst, sem slíkar smábátaferðir virðast aðalhlutverki þess óviðkomandi. Aðalhlutverk þess er sem sje millilandaferðir og annað ekki.

Í öðru lagi hefi jeg það að athuga við tillöguna, — og það er aðalmótbáran, — að þar er fje veitt alveg út í óvissu. Þar er reyndar sagt, að hækka megi „að nokkru“ styrkinn, en þetta „að nokkru“ er býsna óákveðið, og gæti styrkurinn orðið feikihár, þrátt fyrir það þótt svo sje áskilið.

Jeg hefði kunnað best við, að till. hefði verið svo orðuð, að stjórninni væri falið að koma bátaferðum á Faxaflóa í hentugt horf, og að henni hafði verið heimilað að hækka styrkinn til ferðanna alt að einhverri ákveðinni upphæð, en ekki alveg óákveðið, eins og jeg tel að liggi í till. þessari.

Þessu vildi jeg gera grein fyrir áður en til atkvæða væri gengið, svo að deildarmönnum væri ljóst, af hverju öll fjárveitinganefndin var ekki hjer á einu máli.