15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það er mjög mikill munur á því, að setja hámarksverð á hverja vörusendingu, sem til landsins kemur, og hinu, að ákveða, í eitt skifti fyrir öll, hve mikið megi færa vöruverð fram, eftir að varan er komin í geymsluhús hjer á landi. Síðari aðferðin er miklu greiðari og framkvæmanlegri.

Jeg efast ekki um, ef þessar reglur verða samþyktar og koma til framkvæmda, að þá verði gætt allrar varúðar í því, að kosti seljenda verði ekki þröngvað, svo að það dragi úr viðleitni þeirra í því að draga vörur að landinu.

Og þá mun þetta einnig verða til þess, að hægra verði að koma í veg fyrir álögur heildsalanna, sem háttv. 6. landsk. þm. (G. B.) mintist á.

En þetta þarf alla ekki að vera skelfandi fyrir kaupmenn, því að eftir upplýsingum háttv. 6. landsk. þm. (G. B.) hafa þeir flestir lagt á vörur sínar með sanngirni, en hafi einhverjir gengið þar of langt, er það ekki nema sanngjarnt, að þeir sætti sig við sömu kjör og stjettarbræður þeirra. En aftur á móti geta þeir losnað við grunsemdir, sem að ósekju hafa fengið orð fyrir ósanngjarnar álagningar.