11.05.1918
Neðri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

44. mál, laun til Gísla Guðmundssonar

Framsm. (Magnús Pjetursson):

Eins og flestum eða öllum háttv. þingdm. er kunnugt, veitir Gísli Guðmundsson gerlafræðingur efnarannsóknarstofu landsins forstöðu. Í síðustu fjárlögum voru honum ætlaðar 300 kr. af launum forstöðumanns, meðan hann gegnir því starfi, auk sinna eigin launa, sem eru 1.800 kr.

Nú hefir gerlafræðingurinn sent stjórninni beiðni um, að sjer verði goldin hálf laun forstöðumanns rannsóknarstofunnar, meðan hann hefir forstöðuna á hendi. Nú hefir stjórnin sent fjárveitinganefnd erindi þetta og lagt til, að þetta verði veitt.

Nefndin vildi nú ekki ganga svo langt, heldur veita honum 600 kr. og miða þá við það, að hann fengi sömu laun og forstöðumaður rannsóknarstofunnar hafði, sem sje 2.400 kr.

Nefndinni þykir sanngjarnt, að þessi maður hafi sömu laun og forstöðumaðurinn hafði. Í þingsályktunartill. stendur 600 kr., og vil jeg taka það fram, að það ber að skilja sem 600 kr. alls, en ekki í viðbót við þær 300 kr. er hann hafði áður af launum forstöðumanns rannsóknarstofunnar, og auk þess auðvitað hundraðsgjald samkvæmt fjárlögunum af tekjum rannsóknarstofunnar.

Jeg skal svo að lokum taka það fram, sem allir skilja, að þetta er engin ný fjárveiting, heldur einungis tilfærsla á veittum lið í fjárlögunum, sem nú gilda.