22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

113. mál, brúargerðir

Halldór Steinsson:

Mjer þykir háttv. deildarmenn vakna nokkuð seint. Nú fyrst, við 3. umr., er úr sumum áttum farið að anda svo kalt, eins og meiningin sje að drepa frv. Skil jeg ekki hvernig á því stendur, því frv. miðar áreiðanlega í rjetta átt.

Mjer hefir virst á hæstv. fjármálaráðherra, að hann ætlaðist til, að lánið yrði tekið alt í einu, um 2 miljónir króna, en vegamálastjórinn ætlaðist til, að það yrði gert á einum 10–12 árum. Nú standa í fjárlögunum brýr fyrir um 300 þúsund kr., og ef árlega yrði varið jafnmikilli upphæð, mundi það fyrirkomulag alls eigi verða ódýrara en það, sem hjer er farið fram á. Annars finst mjer sjálfsagt, að brúamálið komist í fast kerfi, eins og t. d. vega- og vitamál. Mjer finst langtum óheppilegra, að þingmenn sjeu að toga á milli sín, hvaða brýr eigi að sitja í fyrirrúmi.