19.08.1919
Neðri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

126. mál, löggiltar reglugerðir um eyðing refa o. fl.

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg ætlaði ekki að fara neitt verulega út í einstök atriði málsins, en hv. þm. Barð. (H. K.) hefir nú gefið mjer tilefni til að bæta ofurlitlu við það, sem jeg sagði áðan. Hann mintist á ákvæði frv., sem ekki heyrir til að ræða við 1. umr., og sagði, að þau væru ekki betri en núgildandi ákvæði.

Um þetta er það að segja, að í núgildandi lögum er ákveðið tiltekið svæði, þar sem sveitarsjóðir eigi að standast kostnað af refaeyðingu. En þeir, sem sömdu lögin, álitu, að refaveiðakostnaður annarsstaðar eða í afrjettarlöndum einstakra manna ætti að greiðast af eigendum slíkra landa. Þessu hefir ekki verið fylgt, enda virðist það ósanngjarnt. Verður því að álítast bót, að þetta sje úr gildi numið.

Hvað skýrslurnar snertir, er ekki um annað eða meira að ræða en að stjórnarráðið geri þar sem annarsstaðar skýrslufyrirmyndir. Er það regla, sem ekkert mælir móti. Stjórnarráðið mun og sjálfsagt hafa eins góðum mönnum á að skipa til þess eins og hv. þm. Barð (H. K.), eða öðrum mönnum úti um land, þótt vitanlega megi margan finna, sem gæti gert þetta.

Fleiru þarf ekki að svara.